140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þingmenn hafa haldið því fram að ekkert komi fram í lögum um landsdóm um heimild til afturköllunar. Hins vegar eru lög um sakamál lögum um landsdóm til fyllingar og þar kemur skýrt fram að menn hafi heimild og í raun skyldu til að afturkalla mál telji þeir ekki lengur forsendur til að halda málarekstri áfram.

Sjálfur saksóknari Alþingis hefur lýst því yfir að slík heimild sé að sjálfsögðu til staðar og slíkt væri ekki inngrip í dómsmál og þar með í raun staðfest að hæstv. forsætisráðherra fór með rangt mál í rökstuðningi sínum. En nú hafa þau stórtíðindi orðið að hæstv. forsætisráðherra Íslands hefur lýst því yfir að hún telji fyrrverandi forsætisráðherra saklausan en samt eigi að draga hann fyrir dómstól með það að markmiði að dæma hann í fangelsi. Þetta eru dapurleg tíðindi, frú forseti.

Ég segi nei.