140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég var á móti því að landsdómsmálið kæmi aftur á dagskrá þingsins því eins og fram hefur komið þá var mikill lögspekingur, Ólafur Jóhannesson, sem taldi að ef Alþingi væri búið að kveðja saman landsdóm væri málið alfarið úr höndum Alþingis. Það var meðal annars rökstutt með því að slíkt þrátefli kæmi ekki upp eins og við stöndum nú frammi fyrir.

Eins og fram hefur komið hefur ekkert nýtt komið fram í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem réttlætir það að þetta mál verði stöðvað í þinginu. Löggjafinn á ekki að hafa afskipti af dómstólum. Ég tel að það stríði gegn þrígreiningu ríkisvaldsins sem varið er í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég fylgi sannfæringu minni í þessu máli og segi já.