140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:46]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það var mat meiri hluta þingmannanefndarinnar að það sem fram væri komið í málinu væri nægilegt og líklegt til sakfellis gagnvart fjórum ráðherrum. Ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar kusu að víkja frá þessari meginreglu, að það væri skylt að ákæra, og vönduðum og faglegum undirbúningi gagnvart sínu fólki, studdir af ráðherrum hrunstjórnarinnar sem báru ábyrgð.

Sá málatilbúnaður allur sem birtist mér eftir þessa atkvæðagreiðslu, og síðar í umræðum um þessa tillögu, er að mínu mati afbökun á ákæruvaldi. (Gripið fram í.) Hann er afbökun á jafnræði, hann er afbökun á réttlæti, hann fer í bága við réttlætiskennd mína, og hann er afbökun á virðingu Alþingis. Ég segi nei við frávísunartillögunni en ég sit hjá við efnislega afgreiðslu þessa máls.