140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við heyrum ítrekað hjá stuðningsmönnum Evrópusambandsaðildar að eina leiðin til að ná tökum á stjórn peningamála landsins sé upptaka evru og þar með aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ýmsir hafa talað um aðrar leiðir, eins og jafnvel einhliða upptöku á mynt. Eina leiðin sé að taka upp aðra mynt til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Ef við horfum hins vegar til reynslu hinna ýmsu landa innan Evrópusambandsins sem hafa tekið upp aðra mynt þá sýnir hún og sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki heldur hvernig einstök lönd halda á og stjórna eigin efnahagsmálum.

Sem dæmi má nefna Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna á meðan Írar tóku upp evru. Svíar búa nú við mikinn hagvöxt, lága verðbólgu og skuldir ríkisins eru litlar. Hins vegar nýtur Írland nú aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Írar sjá eiginlega ekki fram úr því hvernig þeir geti borgað skuldir sínar. Myntin endurspeglar þannig efnahagsstjórnina, hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórn, hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningamálastefnu getur ekki verið bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir þurfa að bera sína ábyrgð á efnahagsstjórninni, ekki bara stjórnvöld og aldrei, aldrei aftur bara Seðlabankinn.

Við þurfum að tryggja þetta óháð því hvort Íslendingar taka ákvörðun um að ganga í ESB. Sérfræðingar hafa jafnvel bent á að ef Íslendingar taka ákvörðun um að ganga í ESB, (Forseti hringir.) taka ákvörðun um að taka upp aðra mynt, skiptir ábyrg stjórn efnahagsmála jafnvel enn þá meira máli, því að þá munum (Forseti hringir.) við ekki hafa sveigjanleikann sem krónan felur í sér.