140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér brýnt mál sem ríkisstjórnin hefur ekki á nægilega afgerandi hátt markað sér stefnu í. Eins og fram kom áðan var ein dönsk króna jafnvirði einnar íslenskrar krónu árið 1924 en árið 2012 er ein dönsk króna jafnvirði 2.200 gamalla íslenskra króna. Slíkur er nú sveigjanleikinn í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Sveigjanleikinn er vissulega mikilvægur í hagstjórnarlegum skilningi en eins og honum hefur verið háttað hér á Íslandi hefur hann einfaldlega verið misnotaður í áratugi. Hann var misnotaður til langs tíma af útgerðinni sem sí og æ taldi sig vera rekna með tapi og átti þátt í því með samvinnu við ríkisstjórnir að gengið var fellt hvað eftir annað. Síðar var sveigjanleikinn misnotaður af bankabröskurunum frægu með samvinnu við Seðlabanka Íslands sem sá glöggt hvert stefndi en gerði ekkert í málinu og kynti undir með aðgerðaleysi sínu þannig að úr varð hrunið.

Að hafa íslenska krónu að óbreyttu gengur ekki lengur og það er alveg augljóst. Nokkrar leiðir hafa verið viðraðar í því máli, meðal annars ný íslensk króna með tilheyrandi skiptigengisleið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir og fleiri hafa nefnt. Það væri sennilega besta leiðin að mínu mati. Til er líka önnur leið, einhliða upptaka evru sem er hugsanlega möguleg, eða upptaka kanadadollars eða annarra gjaldmiðla sem eru hugsanlega líka valkostir. Evra með samþykki Evrópusambandsins er það hins vegar ekki. Við munum ekki geta tekið upp evru þannig nema með inngöngu í ESB og þá eftir að lágmarki fimm til tíu ár. Það er fjarlægasti draumurinn og möguleikinn í málinu og þess vegna þarf að skoða aðra hluti miklu vandlegar. Það vantar athugun á kostum og göllum afgerandi valkosta, og algjörlega vantar stefnumótun af hálfu hins opinbera um hvað sé plan B, plan C og plan D í þessum efnum. Slíkar áætlanir verða að vera til og það er að mínu mati ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að ekki sé verið að skoða slíkar leiðir.