140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:10]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ísland hefur verið að kljást við gjaldmiðilskreppu frá haustinu 2008 þegar fjárfestar lögðu á flótta frá krónunni sem þeir tengja núna við áhættu. Við munum ekki leysa gjaldmiðilskreppuna nema með því að skipta um gjaldmiðil og leiðrétta í leiðinni froðueignir eins og til dæmis aflandskrónurnar og verðtryggðar skuldir. Þær froðueignir sem núna eru inni í hagkerfinu ógna stöðugleikanum og munu verða ein helsta hindrun í vegi fyrir því að hægt verði að taka hér upp evru.

Ég óttast að við munum reyna að halda öllu óbreyttu áfram og lenda í einhvers konar skuldakreppu og áframhaldandi gjaldeyrishöftum, vegna þess að við treystum okkur ekki einu til þess að leggja á hvalrekaskatt eða skatt á útstreymi fjármagns, sem væri þó ein leið til að leiðrétta froðueignirnar, og halda í krónu sem enn þá og áfram verður rúin öllu trausti. En við gætum tekið upp nýja krónu og farið fljótt í gegnum þessa nauðsynlegu leiðréttingu á froðueignum, nýja krónu sem hefði mismunandi skiptigengi þannig að skuldir og aflandskrónur færu á mun lægra gengi en laun.

Frú forseti. Þeir sem vilja ekki taka upp evru gera sér grein fyrir því að fórna þarf háu atvinnustigi fyrir efnahagslegan stöðugleika, að evrópskir bankar munu ekki lána vandræðalöndum lán á lágum vöxtum. Vextir á Íslandi munu því ekki lækka við upptöku evrunnar. Blind trú á evrulausnina hefur dregið krónukreppuna á langinn og það er löngu orðið tímabært að skoða aðra möguleika eins og upptöku nýrrar krónu.