140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar ekki að taka upp evru bara vegna þess að mér finnist hún töff eða eitthvað svoleiðis, það er ekki eitthvert tilfinningamál. Það er einfaldlega niðurstaða mín, ég er búinn að vega og meta kostina og gallana. Umræðan á að fara fram á grundvelli excel-skjals sem við þurfum að búa til, setja upp alla kostina og gallana, plúsana og mínusana, og reyna að taka út úr jöfnunni ýmsar alhæfingar og tilfinningasemi.

Ég upplifi þetta sem mjög alvarlegt og mikilvægt mál. Það varðar einfaldlega það hvort það séu nógu góð lífsskilyrði á Íslandi fyrir heimili og fyrirtæki. Þær raddir heyrast aldeilis úr atvinnulífinu að hér séu ekki nógu góð lífsskilyrði, ekki nógu mikill stöðugleiki, og þá mun fólk kjósa með fótunum. Skoðanakannanir sýna á Íslandi að ungt fólk íhugar alvarlega í stórum stíl að búa annars staðar og hvers vegna skyldi það vera? Það er kannski vegna þess að við erum búin að búa til hagkerfi þar sem maður verður óumflýjanlega spákaupmaður ef maður tekur húsnæðislán eða kaupir sér bíl á láni.

Því verðum við að breyta og ég held að við verðum að breyta því með því að skipta um gjaldmiðil. Lítum á hvað gjaldmiðillinn gerir okkur bara núna í þessari viku; stór fyrirtæki og sveitarfélög greiða niður skuldir, erlendar skuldir, það eru stórir gjalddagar nú og líka fram undan. Það lækkar gengi krónunnar, veldur verðbólgu á Íslandi og hækkar þar með innlend lán. Er furða að í því ásigkomulagi treysti bankar og fjármálastofnanir sér ekki til að bjóða óverðtryggð lán til lengri tíma en 60 mánaða til húsnæðiskaupa? Það er of ótryggur grundvöllur.

Ég ítreka að innganga í ERM II mundi fela í sér stuðning við að taka upp Maastricht-skilyrðin. Við þurfum ekki að taka upp Maastricht-skilyrðin áður. Innganga í ERM II getur orðið eftir þrjú ár, eins og fram hefur komið í máli hæstv. utanríkisráðherra. Það er niðurstaða mats míns (Forseti hringir.) og það er alveg skýrt fyrir mér að við eigum að stefna í þá átt, það er líka niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar.