140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, mér finnst hún hafa verið málefnaleg og góð. Í raun má segja að það hafi einkennt hana að menn eru niðri á jörðinni gagnvart því að það eru engar töfralausnir til í þessu máli.

Svo svarið við meginspurningu hv. málshefjanda sé alveg skýrt þá lít ég svona á málin: Við verðum augljóslega að móta stefnu og búa okkur tækjum til að geta viðhaldið sjálfstæðri mynt, sjálfstæðum gjaldmiðli, með farsælum og árangursríkum hætti einfaldlega af þeim praktísku ástæðum að við höfum enga tryggingu fyrir því og enga vissu um að annar valkostur verði í boði að minnsta kosti á næstu árum. Þess vegna væri ábyrgðarlaust og ekki frambærilegt annað en að gera þetta.

Taki málin hins vegar aðra stefnu, ef þjóðin samþykkti að ganga í Evrópusambandið eða við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við yrðum að grípa til einhverra annarra og meira einhliða aðgerða í þessum efnum er það ný staða, vegna þess að það er hárrétt sem fram kom hjá bæði fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Pétri Blöndal og fleirum, að það að ímynda sér að upptaka evru eða einhverrar annarrar stórrar myntar einhliða, án þess að taka á undirliggjandi veikleikum og óstöðugleika hagkerfisins er ekki farsæl leið. Það hefur verið að sannast hjá löndum sem flutu sofandi að feigðarósi í skjóli evrunnar og ódýrs aðgangs að nægu lánsfé á meðan menn héldu að grísk evra og þýsk evra væru það sama, en það gera menn ekki lengur.

Til þess að því sé til haga haldið uppfyllir Ísland nú þegar að minnsta kosti eitt Maastricht-skilyrðanna, það varðar halla ríkissjóðs. Talandi um aga eða agaleysi og árangur eða árangursleysi hefur sú staðreynd nú dregist upp fyrir okkur að á aðeins þremur árum höfum við farið úr tveggja stafa tölu hvað varðar halla ríkissjóðs niður fyrir þau magísku 3%, sem eru eitt af Maastricht-skilyrðunum.

Að lokum er það verðmætasköpunin og að menn eyði ekki meiru en þeir afla til langs tíma sem skiptir hér máli. Íslenskt atvinnulíf er (Forseti hringir.) annað í dag en það var og við skulum ekki bera óstöðugleikann og sveiflurnar frá þeim tíma þegar sjávarútvegur var 80% (Forseti hringir.) af útflutningstekjum saman við þá miklu meiri fjölbreytni og fleiri stoðir sem standa undir hagkerfinu í dag. Það á að geta auðveldað að móta hér farsæla og stöðuga stefnu (Forseti hringir.) að íslenskt atvinnulíf er nú mun fjölbreyttara, ekki síst útflutnings- og samkeppnisgeirinn.