140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég vil einnig þakka þeim samtökum sem hann nefndi hér áðan, UNICEF og Barnaheill, fyrir að hafa nú upp á síðkastið birt skýrslur sem undirstrika vel það vandamál sem vannæring barna er. Ég vil segja það algjörlega skýrt við hv. þingmann, og þá sem hér taka þátt í umræðunni, að íslenska ríkisstjórnin fylgir algjörlega þeim markmiðum og þeirri markmiðssetningu sem er að finna í þessum skýrslum.

Því til staðfestu vil ég nefna það sérstaklega að þegar ég talaði síðast fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslensku ríkisstjórnarinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á síðasta hausti var þetta það mál sem ég tók upp fyrst í ræðu minni og það var eitt helsta áhersluatriðið í máli mínu. Ég vil sömuleiðis þakka Alþingi Íslendinga fyrir þann skilning sem það hefur á síðustu mánuðum og missirum sýnt þeirri viðleitni að leggja fram aukið fé af hálfu Íslendinga til að ráðast gegn þessu vandamáli.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður sagði, að Íslendingar eru á meðal ríkustu þjóða heimsins og okkur ber að leggja ríkulega af mörkum. Ég vil samt sem áður rifja það upp að í kjölfar bankahrunsins og þeirra hremminga sem gengu yfir Ísland var það rætt fullum fetum, meðal annars í þessum sal, að þróunaraðstoð og framlag til mála af þessu tagi væri lúxus sem við gætum þá ekki veitt okkur. Sem betur fer höfum við vikið af þeirri braut.

Staðreyndin er sú að þessi málefni eru ekki í nógu góðu horfi á alþjóðavettvangi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði hér, og vísaði í skýrslu Barnaheilla, að á hverri klukkustund deyja 300 börn af völdum vannæringar. Jón Kalman Stefánsson rithöfundur smellti þessu inn í íslenskan veruleika með ákaflega nöturlegri staðhæfingu, í bréfi sem hann skrifaði sem ákall til mín og íslensku ríkisstjórnarinnar, þar sem hann sagði að það jafngilti því að á hverjum einasta degi mundu öll börn í 25 leikskólum í Reykjavík deyja. Þannig er staðan.

Hv. þingmaður rifjaði það upp að á Indlandi gengur helmingur barna hungraður um. Í þeim löndum þar sem vandamálið er mest, á Indlandi, í Pakistan, Bangladess og Nígeríu, er staðreyndin sú að á milli 40 og 50% barna ná ekki fullum líkamlegum þroska vegna vannæringar. Ég tek undir öll þau orð og áfrýjunarorð sem er að finna í þessum skýrslum.

Hins vegar er það þannig að íslenska ríkisstjórnin hefur bent á það að miklu frekar þarf af hálfu alþjóðastofnana að leggja fjármagn til þess að byggja upp sjávarútveg og landbúnað til að tryggja fæðuöryggi fremur en að leggja gríðarlegar upphæðir í gegnum Alþjóðabankann og aðrar stofnanir til að byggja upp innviði, þetta er það sem kallar á.

Við Íslendingar stöndum okkur sem betur fer betur en áður, framlög okkar eru að aukast. Á þessu ári verja íslensk stjórnvöld ríflega 3 milljörðum króna til þróunaraðstoðar og til neyðaraðstoðar. Því fé er meðal annars veitt til alþjóðlegra hjálparstofnana og félagasamtaka sem eru margar hverjar með baráttuna gegn vannæringu barna sem höfuðverkefni sitt. Við höfum líka, Alþingi og ríkisstjórn, orðið sammála um að setja fram tímasetta áætlun um að auka framlög okkar á næstu tíu árum. Það eru ekki innantóm orð eins og sést á því að á þessu ári eru framlög til málaflokksins, til þróunarmála, aukin um á fjórða hundrað milljónir króna og fyrir það á Alþingi heiður skilinn. Rétt er að það komi fram að Íslendingar bregðast alltaf, án undantekninga, við skyndilegri neyð, svo sem af völdum náttúruhamfara og ófriðar, þar sem er nánast óbrigðult að hungurvofan læðist í kjölfarið. Við veitum alltaf fjármagn til neyðarverkefna, félagasamtaka og hjálparstofnana eins og matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, sem er ávallt fyrst á vettvang með matvælaaðstoð til sveltandi fólks.

Ég vil líka geta þess sérstaklega, út af skýrslunni sem kom út um vannæringu barna í þéttbýli í stórborgum sem UNICEF kom fram með, að við Íslendingar gerum ráð fyrir því á þessu ári að stuðningur við þennan þátt í starfi UNICEF, sem miðar að því að bæta næringu og þroska barna, muni nema samtals 120 millj. kr. Sömuleiðis hef ég sem utanríkisráðherra lagt á það ríka áherslu að lyfta undir frjáls félagasamtök sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Þau fengu í hittiðfyrra sérstakan fjárlagalið, urðu 100 milljónir það árið, á þessu ári fá þau næstum því 200 millj. kr.

Þá má heldur ekki gleyma mjög mikilvægri tvíhliða þróunarsamvinnu sem við höldum úti í þremur fátækustu ríkjum Afríku, Malaví, Mósambík og Úganda, þar sem við störfum á blásnauðustu svæðunum í grasrótinni og vinnum gegn hungri. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri á að minnsta kosti tveimur þessara staða.

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) mælti hér í ræðu sinni, ég tek undir allar þær áskoranir sem er að finna í þeim tveimur skýrslum sem eru tilefni þessarar umræðu.