140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni kærlega fyrir að taka þetta mál upp í sérstakri umræðu á þingi og hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans svör.

Þetta er mikið áhyggjuefni og ég held að það hafi sýnt sig að það skiptir máli fyrir Ísland sem sjálfstætt ríki að axla sína ábyrgð þegar kemur að aðstoð við þau ríki sem standa verr en við. Við þurfum að axla okkar ábyrgð hvað varðar þróunaraðstoð.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvernig sú aðstoð, þar sem við erum smáríki, getur nýst best og hvernig hún fellur að því sem við teljum að skipti máli og hefur sýnt sig að skilar mestum árangri. Ég held að þróunaraðstoð, nákvæmlega eins og kemur fram í þessari skýrslu, skili sér langbest ef við einbeitum okkur að fjölskyldum, að konum og að velferð barna.

Það er sláandi að sjá, eins og hér, eitthvað sem við ættum svo sem öll að vita, að án góðrar næringar skaðast velferð eða uppbygging alls samfélagsins. Það getur haft bein áhrif á greind barnanna hvort þau fá ásættanlega næringu eða ekki; þættir eins og brjóstagjöf, að vinna í því að tryggja að börn fái brjóstamjólk fyrstu sex mánuði ævinnar. Hér eru mjög góðar tillögur og ég beini því til hæstv. utanríkisráðherra að huga mjög vel að þeim þegar hann mótar stefnu sína varðandi þróunaraðstoð.

Ég vil líka í lok míns máls benda á að þetta er ekki bara vandamál fátækra landa, þetta er líka vandamál í þróuðum ríkjum. Í Bandaríkjunum þekkist þetta vandamál í borgum þar sem ekki er aðgangur að ásættanlegum matvöruverslunum. (Forseti hringir.) Og hér á Íslandi voru það um þúsund fjölskyldur sem þurftu að leita sér aðstoðar hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir jólin vegna þessa að þær áttu ekki fyrir mat.