140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:49]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Misjafnt höfumst við að. Á Íslandi er offita stórt heilsuvandamál meðal barna og ungmenna á meðan stærsti vandinn í mörgum fjölmennum ríkjum heims er því miður kannski vannæring og þá ekki síst vannæring barna. Vannæring virðist vera dulinn vandi þegar maður fer að kynna sér málið. Um hann þurfum við að upplýsa til þess að við getum í raun og veru ráðist að honum og að rótum hans.

Mig langar til að þakka þeim alþjóðlegu félagasamtökum sem hafa unnið að því að vekja athygli okkar á þessum dulda vanda og komið fram með leiðir til að vinna gegn honum. Auðvitað er það dýrt en það er líka dýrt að láta vandann fram hjá sér fara vegna þess að það er náttúrlega ljóst að vannærð börn eru mjög viðkvæm fyrir alls kyns heilsufarsvanda og það er líka dýrt. Auk þess verður andleg geta líkamlega vannærðra einstaklinga miklu takmarkaðri en ella og þar með fer mikilvægur mannauður til spillis.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að til að skilja málið verðum við að reyna að setja okkur í þau spor hvernig það væri ef maður ætti ekki mat handa börnunum sínum og horfði upp á þau vannærð. Ég held að það sem skipti mjög miklu í þessu stóra máli sé að við leggjum áherslu á að hjálpa mæðrum. Það skiptir máli að mæður viti hvernig best sé að vinna með börnin sín. Til að þær geti haft börn sín á brjósti mega þær sjálfar auðvitað ekki vera vannærðar, þá þarf að vera aðgangur að drykkjum og annað slíkt, en þannig held ég að við getum unnið vel að þessum málum og ég hvet yfirvöld til dáða í því efni. Ég held að við getum tekið þar öll höndum saman. Við erum á uppleið efnahagslega og við getum vonandi varið meira fjármagni til að aðstoða við þetta.