140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að taka hér upp mjög mikilvæga umræðu. Það er svo sannarlega rétt að það er gríðarlegt vandamál hvað vannæring er útbreidd í heiminum. Þær tölur sem maður sér í skýrslum frá Barnaheillum eru skelfilegar, 300 börn deyja, ekki á dag heldur á klukkustund vegna vannæringar. Ef maður setur það í samhengi við til dæmis flugvélar þá tekur Boeing 737 189 farþega þannig að þetta er meira en ein slík vél á klukkustund, sem er tala sem maður skilur ekki, þetta er svo skelfilegt.

Við framsóknarmenn höfum ályktað um þessi mál og sú ályktun er á svipuðum nótum og hæstv. utanríkisráðherra fór hér með, við teljum að lykillinn sem við eigum að vinna að í alþjóðlegu þróunarstarfi sé að hjálpa fólki í þróunarríkjunum til sjálfsbjargar. Þar höfum við líka rætt um það að mjög mikilvægt sé að styðja við störf kvenna. Fjármagn til kvenna virðist skila sér betur til barna og fjölskyldna en annað fjármagn. Í ályktun okkar segir einnig að á næstu árum og eigi síðar en 2008 eigi að verja 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála, við erum svolítið langt frá því markmiði í dag.

Ég vil því taka undir það sem hér hefur komið fram, mikilvægt er að hjálpa ríkjunum til sjálfshjálpar og að styrkja þau líka með fjármagni. Það er svolítið margt öfugsnúið í þessari umræðu. Hér á Íslandi erum við með fjórðu feitustu þjóð Evrópu, talsvert af feitum börnum, en það virðast vera börn sem sum hver eiga frekar í félagslegum vanda. Hér eru hollar matvörur því miður margar ansi dýrar þannig að margt er öfugsnúið í þessari umræðu. En ég skora á hæstv. ráðherra að taka myndarlega á í þessum málaflokki af því að staðan er ekki góð.