140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem ég óskaði eftir að færi fram um þessi mál í tilefni af skýrslu Barnaheilla og ég vil þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör hans og þær áherslur sem komu fram í máli hans og upplýsingar um með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafa talað þessu máli og lagt áherslu á það, meðal annars á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég tek einnig undir þakkir margra þeirra sem hér hafa talað til mannúðarsamtaka sem láta sig þessi mál varða nótt og dag, eins og einn hv. þingmaður sagði, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, og eru óþreytandi við að tala máli barna og benda stjórnvöldum á hver neyðin er og vinna að lausnum.

Ég tek sömuleiðis undir það að mjög mikilvægt er fyrir okkur að vinna að því í samstarfi við aðra sem sinna þróunarsamvinnu að byggja upp landbúnað og sjávarútveg, byggja upp matvælaframleiðsluna og matvælaöryggið. Eitt af áhyggjuefnum hvað það varðar er að sjálfsögðu matvælaverðið sem hefur farið hækkandi og mun gera í fyrirsjáanlegri framtíð. En það er ekki nóg að auka framleiðsluna eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á, það þarf ekki síst að auka gæði matvælaframleiðslunnar.

Markmið þróunarsamvinnuáætlunarinnar sem við samþykktum á Alþingi eru góð og um hana er breið pólitísk samstaða sem ég fagna. En ég vek líka athygli á því að á sama tíma og dregið hefur almennt úr fátækt í heiminum hefur fátækt barna aukist. Það kann að vera vísbending um að misskipting og ójöfnuður hafi aukist og það er áhyggjuefni, virðulegur forseti.

Svo tek ég loks undir það (Forseti hringir.) að mikilvægt er að í þessari umræðu séu send þau skilaboð (Forseti hringir.) að við viljum láta okkur þessi mál varða, að við viljum leggja okkar af mörkum.