140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Enn leita ég þá heimildar Alþingis og að þessu sinni til þess að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem nú er nr. 17/2011, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn, hann fjallar um flutningastarfsemi. Gert er ráð fyrir því samkvæmt þessu máli að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009, um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó. Markmiðið er að samræma reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins um réttindi og skyldur farþega og flutningsaðila á sjó þegar óhapp verður, og færa þær til nútímahorfs.

Þessi reglugerð er hluti af Erika III, sem svo er kallað, en þannig nefna menn þriðja siglingaöryggispakka ESB þar sem tvö helstu meginmarkmiðin eru að fyrirbyggja sjóslys og gera ráðstafanir þegar slys verða, þar á meðal að kveða á um bótaábyrgð vegna slysa sem farþegar í sjóflutningum verða fyrir. Með þeirri reglugerð sem ég nefndi áðan verður sömuleiðis tekin upp í rétt ESB-bókun frá árinu 2002 um svokallaðan Aþenusamning frá 1974, en eins og hv. þingmenn í salnum vita varðar sú bókun flutning á farþegum og farangri á sjó. Reglugerðin tekur bæði til innanlandssiglinga og til alþjóðlegra siglinga. Ég tek það þó fram, herra forseti, að hún mun að vísu ekki taka til allra skipa í innanlandssiglingum í upphafi en stefnt er að því að rýmka gildissvið hennar fyrir mitt ár 2013 þannig að hún taki til allra skipa í innanlandssiglingum.

Bótaábyrgðarkerfi reglugerðarinnar er mismunandi eftir því um hvernig tjón er að ræða. Til hlutlægrar bótaábyrgðar flutningsaðila getur komið í ákveðnum tilvikum og þá þarf tjónþoli ekki að sýna fram á sök flytjanda. Í öðrum tilvikum er bótagrundvöllurinn annaðhvort öfug sönnunarbyrði eða venjuleg sakarábyrgð. Það tel ég að liggi í augum uppi hjá hv. þingmönnum utanríkismálanefndar sem hér eru staddir og hlýða á mál mitt. Gagnvart þeim og hæstv. forseta vil ég líka upplýsa að flutningsaðila, sem skráður er í aðildarríki og hefur leyfi til að flytja fleiri en 12 farþega, ber skylda til að vera með ábyrgðartryggingu eða aðra fjárhagslega tryggingu, svo sem bankatryggingu, til þess að standa undir ábyrgð þegar mannskaði eða slys verður. Sú aðlögun að ESB í krafti EES-samningisins kallar á breytingar á siglingalögum nr. 34/1985. Þá upplýsi ég hv. Alþingi og hæstv. forseta um að hæstv. innanríkisráðherra mun leggja fram lagafrumvarp til að fullnægja þessu máli og gerir það á þessu löggjafarþingi.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.