140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Um hv. þingmann má segja og fyrsta byggðamálaráðherra Íslands sem kemur úr 101 að þeir eru báðir í hjarta sínu landsbyggðarberserkir, þess vegna hafa þeir ekki bara rætt þessi mál saman yfir ræðustól Alþingis, eins og hv. þingmaður sagði áðan, heldur hafa þeir nánast alltaf verið sammála um þetta tiltekna mál, strandsiglingar. Má rifja það upp að ég og hv. þingmaður höfum áður tekið saman á ýmsum framfaramálum sem horfa til bætts hags landsbyggðarinnar og ekki síst þess nágrennis sem er við Siglufjörð sem við teljum báðir að sé kannski með merkari höfuðstöðum Norðurlands. Þá vil ég sérstaklega nefna að við stóðum saman að því hér að slást um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð með ágætum árangri. Hv. þingmaður átti þar drjúgt frumkvæði. En eins og hann man lá þáverandi byggðamálaráðherra ekki á liði sínu þegar hann átti kost á að koma að því máli, gilti þar jafnt um að veita viðkomandi þingmanni stuðning í umræðu þegar ýmsir þéttbýlisbófar voru ekki algerlega á sama máli, sömuleiðis í atkvæðagreiðslum. Má líka nefna að sá fyrrverandi byggðamálaráðherra gat einnig beitt sér á öðrum vígstöðvum sem ekki eru alltaf sénar þeim sem sitja alla daga í þingsölum.

Hv. þingmaður er algerlega á réttum kúrs þegar hann segir að ég sé hlynntur strandsiglingum. Ég tek undir allt sem hv. þingmaður sagði um þær. Ég tel að strandsiglingar séu mjög jákvæðar. Ég tel að þær geti í senn dregið úr flutningskostnaði og hægt að flytja margvíslegar vörutegundir með þeim hætti. Það sem skiptir kannski ekki síst máli er að sá kostnaður sem við getum kallað umhverfiskostnað og hlýst af losun gróðurhúsalofttegunda minnkar snöggtum. Þá gæti ég flutt góð rök fyrir strandsiglingum með því að við vitum að hinar stóru flutningalestir sem við köllum vöruflutningabifreiðar og fara um vegi landsins með tengivagna fulla af verðmætri útflutningsvöru í formi fiskjar, eyða samkvæmt rannsóknum vegakerfi landsins hver og ein á við 10 þús. hefðbundna fólksbíla. Þarna er því um mikið hagsmunamál að ræða. Ég styð hv. þingmann í því.

Þá kemur að spurningunum sem hv. þingmaður varpaði til mín. Í reynd snerust þær um hvort vera kynni að verið væri að íþyngja verulega þeim sem standa fyrir útgerð og flutningum á sjó. Hv. þingmaður vék máli sínu einkum að farþegum, en þetta mál tengist ekki bara farþegaflutningum á sjó heldur líka vöruflutningum á sjó. Í fyrsta lagi er því til að svara að þetta mál eykur klárlega rétt þess sem flytur vöruna eða er fluttur. Sú réttarbót getur verið gagnvart tjónvaldi, en getur líka verið beint gagnvart tryggingafélaginu. Til dæmis kemur fram í greinargerð með málinu að í sumum sérstökum tilvikum þarf tjónþoli ekki að sanna sök þess sem flytur til að geta fengið bætur. Hann getur í staðinn fyrir að beina kröfum sínum um bætur að tjónvaldi snúið sér að tryggingafélaginu milliliðalaust. Það leiðir til þess að úrlausn mála verður skjótari og kannski betri líka fyrir vikið. Við vitum það að minnsta kosti að hin stóru og sterku tryggingafélög kunna á þessi mál og eru miklu sterkari en þær útgerðir sem hafa, til dæmis ef við höldum okkur við strandflutninga á Íslandi, gert tilraunir til að koma slíkum flutningum á hin síðustu árin og hafa því miður ekki alltaf endað nægilega vel.

Þetta atriði þarf auðvitað að skoða í nefndinni. Hv. þingmaður spurði mig síðan hvort ég teldi að þetta mál mundi hafa einhver íþyngjandi áhrif. Ég held ekki. Það má færa rök fyrir því að í reynd styrki þetta útgerðirnar. Ég skal skýra út fyrir hv. þingmanni af hverju.

Ef þeir sem flytja vörur á sjó geta gert það í þeirri vissu að komi eitthvað upp á eigi þeir skjótari úrlausn sinna mála hvað bætur varðar en áður, er líklegra að þeir notfæri sér þann flutningsmáta í ríkari mæli en ella. Hér leyfi ég mér, herra forseti, að draga örlítið á reynslu mína úr hinu fyrra lífi mínu en þá var ég aðstoðarforstjóri tryggingafélags og þekkti þessa hluti mætavel, kom mjög oft að því að bæta tjón sem hafði orðið vegna flutninga á sjó, sem betur fer aldrei vegna mannskaða á sjó.

Svar mitt til hv. þingmanns er því að hugsanlegt er að í einstökum tilvikum geti þetta leitt til skjótari útláta af hálfu þeirra sem flytja. Ég dreg þá ályktun af skoðun málsins að það geti líka leitt til þess að sá sem flytur sé í eilítið verri stöðu en ef þetta væri ekki. En þegar allt er saman dregið tel ég að þetta slái sterkari stoðum undir strandsiglingar sem flutningsmáta.

Ég vek svo eftirtekt hv. þingmanns á því að það verður ekki fyrr en um mitt ár 2013 sem líklegt er að þetta muni ná yfir innanlandssiglingar. Þetta varðar kannski ekki síst siglingar á úthafinu og náttúrlega viðhorfi til þeirra, ekki síst Akureyringa til dæmis. Líklegt að siglingar norður í höf, ekki bara með vörur til að flytja milli heimsálfa heldur líka með farþega og ferðamenn, muni aukast. Það er reyndar nú þegar hafið í kjördæmi hv. þingmanns en framsækið fyrirtæki á Húsavík er að minnsta kosti farið af stað með siglingar við Grænlandsstrendur, að vísu þannig að ferð túristans hefst þar. En ég hef skilið það svo, ég hef kynnt mér það eins og margt sem til framfara horfir, að í framtíðinni sé fyrirhugað sigla frá norðurströnd Íslands norður í höf með skemmtiferðamenn.

Sömuleiðis sjáum við að þeim stórfjölgar skipunum sem taka farþega norður um höf og til Íslands. Hv. þingmaður man kannski ekki eftir því því hann hefur verið svo lengi á þingi en skömmu eftir að hann kom inn á þing í fyrsta skipti áttum við hér umræður um möguleika á því að auka tíðni skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands. Þá var ég iðnaðar- og ferðamálaráðherra (Forseti hringir.) og kannski …

(Forseti (SIJ): Forseti vill koma því á framfæri að klukka í púlti er röng. Tími ráðherra er við það að líða.)

(BJJ: Það er mikil synd.) Það er mikil synd, herra forseti, því ég var með uppbyggða ræðu í huga mínum og átti eftir að koma að nokkuð svífandi og hástemmdu niðurlagi. Ég verð þá einungis að segja, herra forseti, að ég skal ljúka máli mínu. En spurningunum eins og ég get svarað þeim hefur verið svarað.

Ég bendi síðan hv. þingmanni á að svona mál verða auðvitað skoðuð í þaula í nefndinni og hugsanlega vísað til annarra nefnda þingsins. Ég átti eftir, herra forseti, að greina hv. þingmanni frá stórkostlegum áformum ríkisstjórnarinnar um strandsiglingar, en það verður að bíða betri tíma.