140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 120/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

573. mál
[14:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hér leita ég heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem merkt er 120/2010, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn en hann fjallar um fjármálaþjónustu. Sömuleiðis er leitað heimildar til þess að fella inn í samninginn eftirtaldar ESB-gerðir:

Í fyrsta lagi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem merkt 2009/65/EB og er um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði.

Í öðru lagi tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem merkt er 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu.

Í þriðja lagi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem merkt er 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og sömuleiðis um varfærniseftirlit með þeim, en það er breyting á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.

Í fjórða lagi, herra forseti, eru það ákveðin tilmæli í gerð framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB sem fjallar um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu og mér þykir ákaflega merkileg.

Fyrstnefnda gerðin leysir af hólmi eldri tilskipanir. Þar er að finna ýmsar breytingar sem er ætlað að auka samkeppnishæfni verðbréfasjóða í aðildarríkjunum. Markmið 2009/83/EB er að tryggja samræmda beitingu ákvæða tilskipunar sambandsins um stofnun og rekstur lánastofnana.

Þeirri sem nefnd var í þriðja lagi, þ.e. tilskipun 2009/110/EB, er aðallega ætlað að koma í staðinn fyrir og sömuleiðis víkka gildissvið eldri tilskipunar Evrópusambandsins um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og eftirlit með þeim.

Þau tilmæli sem ég gat um að mér þættu sérstaklega áhugaverð og merkileg eru frá framkvæmdastjórninni merkt 2009/384/EB og varða starfskjör í fjármálageiranum. Þau eru því miður ekki lagalega bindandi. Því miður, segi ég, vegna þess að ég tel að það væri ákaflega mikilvægt að hafa þau einmitt í lögum allra landa.

Samkvæmt þessum valkvæðu fyrirmælum er aðildarríkjunum boðið að setja reglur á þessu sviði. Þar er lagt til að aðildarríkin setji reglur sem tryggi að starfskjarastefna fyrir starfsmenn sem taka áhættu sé í samræmi við áhættuna og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun. Með öðrum orðum er verið að reyna að draga úr því að bónusgreiðslur úr hófi fram hvetji starfsmenn til að taka of mikla áhættu. Ég gæti haldið ákaflega langa ræðu fyrir hv. þingmenn, bæði í galleríum og á jörðu niðri, um hvað það kostaði okkur og hefur kostað marga á umliðnum árum.

Þetta er þess vegna ákaflega merkilegt sem ég tel að hv. utanríkismálanefnd eigi að skoða sérstaklega.

Það þarf að breyta lögum til að innleiða allt þetta bix. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áformar að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum í fyrsta lagi um verðbréfasjóði, í öðru lagi um fjárfestingarsjóði, í þriðja lagi um fagfjárfestasjóði og loks frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki.

Efni tilskipunar 2009/83/EB er nægilegt að innleiða með því að breyta reglum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu.

Að því er varðar síðasttöldu tilskipunina, 2009/384/EB, hefur Ísland nú þegar tekið tillit til tilmælanna sem þar eru fólgin í lögum nr. 161/2002.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til þrautskoðunar hjá hv. utanríkismálanefnd.