140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Eitt af því sem margir hafa áhyggjur af á landsbyggðinni, af því að hv. þingmaður talaði um að breytingar á sjávarútvegskerfinu ættu meðal annars að miða að því að efla byggð í landinu, er að auðlindagjaldið renni að einhverjum hluta beint í ríkissjóð og á skorti einhvers konar byggðatengingu þannig að fjármagnið renni aftur til viðkomandi byggðarlaga. Þetta heyrir maður jafnt hjá þeim sem vilja breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og þeim sem vilja litlar breytingar.

Ég hegg eftir því að í tillögu hv. þingmanns og fleiri þingmanna er ekki komið inn á það. Eingöngu er fjallað um að endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar, en ekki minnst á að tengja gjaldið að einhverju leyti viðkomandi byggðarlagi. Mig langaði að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þá veru, hvort hann telji ekki skynsamlegt að tengja auðlindagjaldið með einhverjum hætti við sveitarfélög, við Samtök íslenskra sveitarfélaga, þannig að þessi tekjustofn renni aftur til viðkomandi byggðarlaga allt í kringum landið. Er þingmaðurinn fylgjandi því að setja ætti það inn í þessa tillögu? Telur hann að full sátt ríki um það? Ég vil kannski fá aðeins sjónarmið hv. þingmanns á þetta.