140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru 14 mánuðir til alþingiskosninga. Þessi ríkisstjórn er búin að sitja í að verða þrjú ár. Hún er búin að gera margar tilraunir til þess að koma fram með frumvarp og það er ekkert óraunhæft að maður velti fyrir sér hvort það sé bara yfir höfuð raunverulegur vilji til þess að skapa hér möguleika fyrir þá sem starfa í greininni um einhverja framtíðarsýn.

Ef þetta mál er svona gríðarlega mikilvægt núna, tæpum þremur árum eftir síðustu kosningar og ári fyrir kosningar, og það er mikilvægt að spyrja þjóðina álits á fiskveiðistjórnarkerfinu, af hverju byrjaði ríkisstjórnin ekki á því að leggja fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju var skipuð sáttanefnd sem átti að leita sátta og semja tillögur? Af hverju var það frumvarp síðan tekið og því breytt? Af hverju var komið með nýtt frumvarp og af hverju er verið að semja frumvarp núna? Hefði ekki verið rétt að fá þessar grundvallarspurningar strax í upphafi?

Telur hv. þingmaður virkilega að þetta frumvarp skýri með einhverjum hætti framtíðarsýnina? Mér finnst með þessu verið að kasta þessu í enn meiri óvissu. Ef það var mikilvægt að fá fram þessar spurningar átti það að gerast strax á fyrsta ári. Strax á fyrsta ári kjörtímabilsins var rétt að spyrja þjóðina þessara grundvallarspurninga en það var ekki gert.

Hins vegar hefur verið eilífur vandræðagangur með þetta mál, átök milli stjórnarflokkanna og innan stjórnarflokkanna um einstök mál, hvort sem það tengist fiskveiðistjórnarkerfinu í heild eða skötuselsmálinu á sínum tíma. Það er orðið algjörlega ótækt að horfa upp á það að í hverju málinu á fætur öðru geti ríkisstjórnin (Forseti hringir.) ekki komið sér saman um grundvallarsjónarmið í þessum málum.