140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann kom víða við. Ég saknaði þess hins vegar að hann tæki á því um hvað þessar þjóðaratkvæðagreiðslur ættu að fjalla. Það er talað um að þær eigi að fjalla um hvort það eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, þá væntanlega aflamark eða sóknarmark. Síðan er talað um að setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar, það er stjórnarskrárbreyting sem ég hélt að væri verið að vinna að annars staðar. Síðan að innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Um þetta fjallaði hv. þingmaður ekki mikið. Hann talaði hins vegar réttilega um að þetta velktist fram og til baka, það væri mikil óvissa í atvinnugreininni o.s.frv.

Nú liggur ekkert frumvarp fyrir um fiskveiðistjórn, þ.e. eignarhaldið á veiðiheimildunum, nema frumvarp sem ég flyt á þskj. 589. Hæstv. efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra o.s.frv. lofaði fyrir áramót að flytja frumvarp innan þriggja vikna. Þær vikur eru löngu liðnar. Þá er spurningin: Um hvað ættu menn að greiða atkvæði þegar ekkert liggur fyrir um framtíð kvótakerfisins?

Síðan talaði hann um gjaldið til þjóðarinnar. Menn tala stöðugt um þjóðina. Er hv. þingmaður sammála mér um að það sé mikill munur á ríki og þjóð? Ríki er stjórnað af stjórnmálamönnum, það eru ráðherrar, þingmenn og meiri hluti þingsins sem ráða ríkinu og í rauninni ganga allar tillögur sem hingað til hafa birst út á það, líka þær frá sáttanefndinni, að kvótinn fari til ríkisins en ekki til þjóðarinnar. Þjóðin er ekkert annað en íbúarnir.

Er hann sammála mér í því að þarna sé mikill munur á?