140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fylgjandi því að sett verði inn í stjórnarskrá auðlindaákvæði um að þessi auðlind sé í þjóðareign. Ég er líka fylgjandi því að gerðir verði einhvers konar nýtingarsamningar við menn um að nýta þessa auðlind eins og meðal annars sáttanefndin lagði til. Ég held að það verði erfiðara að útfæra þá leið og tillögu sem hv. þingmaður hefur flutt um að kvótinn renni beint til þjóðarinnar sjálfrar og einstaklinganna, en sú tillaga er í meðförum þingsins. Það verður fróðlegt að sjá hver sjónarmið ólíkra aðila verða um hana varðandi útfærslur og annað.

Varðandi þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og það að stór hluti búi í þéttbýli var það einmitt þess vegna sem ég vakti máls á því í ræðu minni áðan að þarna að baki kynnu að búa ólík sjónarmið. Ég er ekki viss um að margir þeirra sem hafa tjáð sig um þessi mál af gríðarlegum þunga séu endilega að hugsa um að byggðirnar standi sem best. Maður hefur heyrt það á máli margra að þeir séu fremur að hugsa um að fá aukatekjustofn til ríkissjóðs af þessari auðlind. Það mun ekki koma sérstaklega vel út fyrir byggðirnar. Ég hjó eftir því í þessari þingsályktunartillögu að það er ekkert fjallað um byggðirnar í þessu sambandi. Þess vegna veltir maður óneitanlega fyrir sér hvort hugmyndafræði þeirra sem leggja fram tillöguna sé ólík að því leytinu að þarna séu aðilar sem trúi því að þetta muni með einhverjum hætti styrkja byggðirnar gríðarlega mikið og hins vegar séu aðrir einfaldlega að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að taka sem mestar tekjur inn í ríkissjóð af sjávarútveginum (Forseti hringir.) og eru ekki með byggðasjónarmið að leiðarljósi í því efni. Það er það sem ég hef gríðarlegar áhyggjur af.