140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[15:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór ekki háðulegum orðum um hv. þingmenn og talaði um hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem sérfræðing Samfylkingarinnar á þessu sviði vegna þess að hún hefur setið í atvinnuveganefnd eða sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd síðan hún kom á þing. Ég geri ráð fyrir að hún hafi reynt að kynna sér þessi mál og viti þess vegna meira um þau en margir samþingmenn hennar.

Það er þannig með mig. Ég hef setið í nær fimm ár á þingi og hef setið í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd frá því að ég kom á þing. Ég hef því orðið mikla reynslu og þekkingu á þessum málaflokki og hef kynnt mér hann mjög vel. Og ég get upplýst hv. þingmann um að ég hef verið á sjó, ég hef verið á vetrarvertíð á sjó og ég hef róið á sumrin á bát frá Siglufirði þegar það hefur hentað mér, svo hún viti það, þó að það komi ekki allt fram í starfsferilsskrá enda hefur það ekki verið aðalatvinna mín. Enda skiptir það ekki máli, hér skipta máli grundvallarsjónarmið atvinnulífsins almennt og að atvinnulífinu sé skapaður sá rammi sem það þarf, á hvaða vettvangi sem er, til að geta starfað sómasamlega. Þannig hafa aðstæður sjávarútvegsins, okkar mikilvægustu atvinnugreinar, ekki verið á undanförnum árum.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir segir að staðfesta þurfi margítrekaðan vilja þjóðarinnar til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í skoðanakönnunum. Af hverju þarf að staðfesta það? Er ekki ljóst að við vitum það almennt úr skoðanakönnunum að sá vilji liggur fyrir meðal þjóðarinnar að gera skuli einhverjar breytingar og ná víðtækari sátt meðal hennar um fiskveiðistjórnarkerfið? Um þetta erum við öll sammála. Þess vegna lögðum við af stað í þessa vegferð í sáttanefndinni, við sem þar störfuðum lögðum mikið á okkur í marga mánuði til að komast að ákveðinni niðurstöðu, sem núverandi stjórnarflokkar hafa síðan klúðrað algerlega. (Forseti hringir.) Þeir geta enga aðra einkunn fengið betri (Forseti hringir.) um þau störf sín en einkunn þeirra eigin ráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, þegar hann kallaði vinnu þeirra við þessi mál fram að þessu (Forseti hringir.) bílslys, ekkert annað.