140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[15:16]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er nóg að vera vel menntaður eins og ég til dæmis er með doktorspróf mitt. Það er ekki nóg að hafa starfað í atvinnugrein í einhvern tiltekinn tíma til að átta sig á eða skilja meginforsendur. Maður þarf náttúrlega líka að beita brjóstviti, maður þarf að hafa bæði þekkingu, menntun og síðan lífsreynsluna.

Vitanlega þurfum við að bera skynbragð á hlutskipti atvinnulífsins og ég vænti þess að við hv. þingmaður gerum það bæði, en hér þarf að bera skynbragð á fleira, t.d. hlutskipti byggðanna og þarfir samfélagsins. Þar eru hagsmunaaðilarnir sjálfir, þ.e. greinin sjálf, ekki eini dómarinn í þeirri sök. Það þarf að bera skynbragð á hlutskipti byggðanna.

Hvað skyldi maður þurfa að búa lengi úti á landi til að skilja hlutskipti byggðanna? Maður þarf að minnsta kosti að vera eldri en tvævetur, það er ég. Maður þarf að hafa búið þar um hríð, alist upp og lifað og hrærst með fólkinu sem byggir þetta land og hefur liðið fyrir þetta fiskveiðistjórnarkerfi. Það er ástæðan fyrir því að ég skil í hverju meinsemdin er fólgin. Það rekur mig áfram í þessu máli, ekki menntun mín eða starfsferill fram að þessu. Það vona ég að hv. þingmaður skilji og að hann hafi að minnsta kosti þann sóma í hjarta sínu að bera virðingu fyrir því.