140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[15:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég hef líka búið úti á landi um nokkurra ára skeið. Ég hef starfað í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar um nokkurra ára skeið, þannig að ég bý að heilmikilli reynslu þegar kemur að því að búa á landsbyggðinni. (ÓÞ: Enginn annar, bara þú.) Jú, jú, það gera sem betur fer margir aðrir. Ég á líka börn sem búa úti á landi.

Hér þarf að beita brjóstviti og hugsa um þarfir samfélagsins og hlutskipti byggðanna. Ég er algjörlega sammála því. Enginn fær mig ofan af því að vilja mjög einarðlega efla byggðina í landinu. En að gera það með einhverjum geggjuðum hugmyndum um fiskveiðistjórnarkerfið og kenna fiskveiðistjórnarkerfinu um það hvernig byggðaþróun hefur verið í þessu landi lýsir mikilli vanþekkingu og engu öðru, mikilli vanþekkingu. Vegna þess að það var skrifað í markmið fiskveiðistjórnarkerfisins, kvótakerfisins, að við skyldum stefna þessa leið, við skyldum fækka í fiskiskipaflotanum, gera fyrirtækin arðsamari og byggja upp sjávarútveginn þannig að hann yrði einn sá öflugasti í heimi, og þetta hefur tekist svo vel til að gera. Það var nákvæmlega markmiðið.

Stjórnvöld brugðust aftur á móti á vaktinni þegar þau settu sér það markmið að byggja upp önnur atvinnutækifæri úti um land, fjölbreyttari atvinnutækifæri. Og þessi ríkisstjórn hefur ekki staðið sig í stykkinu í þeim efnum eins og dæmin sanna. Hún hefur auðvitað staðið í vegi fyrir allri atvinnuuppbyggingu. (ÓÞ: Þið stóðuð ykkur svo vel.) Ég tala fyrir því að þegar við förum í orkufrekan iðnað eigi að vera forgangsatriði að byggja hann upp úti um land, fjölbreyttan iðnað sem getur skapað fjölbreytt störf. Það er grunnurinn að því að endurbyggja landið og snúa við þeirri leiðindabyggðaþróun sem við höfum horft upp á undanfarin ár. Það er grundvallaratriðið. Það markmið næst aldrei með því að (Forseti hringir.) koma fiskveiðistjórnarmálunum í þann auma farveg sem einkunn hæstv. utanríkisráðherra, bílslys, segir allt sem (Forseti hringir.) segja þarf um.