140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samstarf við Kanada um gjaldmiðilsmál.

[15:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. Hún snýr að þeim upplýsingum sem komu fram í máli sendiherra Kanada hér á dögunum um að hann hafi haft samband við forráðamenn kanadíska seðlabankans og þeir tjáð honum að Seðlabanki Kanada mundi líta það jákvæðum augum ef beiðni kæmi frá Íslandi um að taka upp formlegt tvíhliða myntsamstarf á milli landanna.

Uppi eru margar skoðanir um það hvernig best skuli haldið á framtíðarpeningamálastjórn íslensku þjóðarinnar. Það eru sterk rök með því að halda uppi krónunni en vissulega eru líka gagnrök. Þá eru þeir til sem telja best að taka upp evruna og það eru alveg örugglega sterk rök gegn því, þó að það séu líka til rök með, og það eru alveg örugglega rök með því að taka upp kanadadollar og það eru rök þar á móti. En til að hægt sé að leggja vitrænt mat á þetta tel ég nauðsynlegt, og vil kanna hvort hæstv. utanríkisráðherra geti tekið undir það með mér, og skynsamlegt í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin að Ísland sendi með formlegum hætti sendinefnd á fund Seðlabanka Kanada og annarra ráðamanna þar til að kanna möguleikann á að taka upp slíkt tvíhliða samstarf. Það er óþarfi að taka það hér upp, og ég veit að hæstv. utanríkisráðherra þekkir það mjög vel, að það er reginmunur á einhliða upptöku myntar og tvíhliða samstarfi eins og hér er verið að ræða um.

Þess vegna ítreka ég spurninguna: Getur utanríkisráðherra tekið undir það með mér að það sé skynsamlegt að senda sendinefnd til Seðlabanka Kanada til að kanna hvort þessi möguleiki sé raunverulega á borðinu? Er þetta raunhæfur möguleiki í þeirri umræðu sem nú á sér stað um möguleika okkar Íslendinga til framtíðar um stjórn peningamála?