140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

nýtt hátæknisjúkrahús.

[15:22]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að heyra hér að undirbúningur að nýjum Landspítala hafi ekki verið nægur. Ég held að þetta mál hafi verið rætt í 10–15 ár og það hafi verið skipulagðir hópar frá öllum stjórnmálaflokkum nema ef vera kynni frá Hreyfingunni sem hafi átt þar fulltrúa eða leitt vinnuna á einhverjum ákveðnum tímum. Hér er um að ræða verkefni sem hefur lengi staðið til og verið vandað sérlega vel til alls undirbúnings. Þegar þetta mál kom inn í þingið fyrir tveimur árum, ef ég man rétt, var fjallað sérstaklega um það í fjárlaganefnd og þar voru einmitt þessi ákvæði sett vegna þess að þá lágu fyrir skýrslur um hversu mikill ávinningurinn væri, þ.e. hversu hagstætt væri að byggja og í rauninni mundi sú hagræðing sem skapaðist við verkefnið standa undir framkvæmdakostnaðinum. Þá var ákveðið, sú tillaga kom fram, að það yrði lagt fyrir Alþingi áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um framkvæmdina. Það er einmitt verið að undirbúa það með kynningu núna í fjárlaganefnd þannig að það er nákvæmlega þingið sem á að fjalla um hvort þessi framkvæmd sé arðbær, hvort hún muni skila til lengri tíma fjárfestingunni í gegnum hagræðingu af framkvæmdinni.

Það var forvitnilegt að hlusta á forstjóra Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í morgun, þar sem hann var einmitt í umfjöllun um sameiningu spítala þar og nýbyggingar, þar sem nákvæmlega sömu rökin eru notuð, þ.e. að hagræðingin muni borga bygginguna. Nú er það í valdi fjárlaganefndar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson situr í að meta þessar tillögur, leggja sjálfstætt mat á þær og taka afstöðu til þess hvort þetta séu fullnægjandi upplýsingar eða ekki. Það var tryggt á sínum tíma að þetta kæmi til þinglegrar meðferðar þannig að það mun ráðast í þessum sal hvort ráðist verður í framkvæmdina.