140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

nýtt hátæknisjúkrahús.

[15:25]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt í umræðunni um nýja sjúkrahúsið að það komi fram að hér er verið að byggja yfir sama rúmafjölda og er núna á sjúkrahúsinu dreift á marga staði í bænum, 100 pláss eru lögð undir sem er afar óhagkvæmt og margt af því þarf mikla endurnýjun. Þetta kemur allt fram í þessari vinnu og er mikilvægt að halda til haga þegar verið er að ræða þetta.

Það er búið að fara í gegnum þessa vinnu aftur og aftur. Það er búið að ræða staðsetninguna aftur og aftur og í sjálfu sér er ekki hægt að ætlast til þess þegar unnið hefur verið að þessu í 10–15 ár að í hvert skipti sem nýr aðli kemur einhvers staðar að málinu þurfi að byrja algjörlega frá grunni. (Gripið fram í: Það varð hrun.) Ég geri mér grein fyrir því, enda var byggingin minnkuð. Það varð hrun, eins og hv. þingmaður bendir á, og byggingin var minnkuð verulega frá því sem upphaflega var áætlað. Ég held að menn verði að skoða þetta út frá þessu. Við erum að reyna að færa okkur inn í nútímann, bregðast við og vera með sjúkrahúsþjónustu á heimsmælikvarða eins og við höfum lofað og út á það gengur þessi nýbygging.