140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Umrædd prófessorsstaða sem ákveðið var að veita að gjöf í tilefni af afmæli Jóns Sigurðssonar á eftir því sem mér hefur skilist að snúa fyrst og fremst að rannsóknum tengdum ekki síst störfum Jóns og ýmsu sem snýr síðan að hans högum. Hann kemur frá Hrafnseyri þannig að þar af leiðandi var tenging við Vestfirði talin eðlileg. Nú er búið að ráða í þessa stöðu sagnfræðing sem ég tel að hafi mikla þekkingu á þessu fræðasviði og ég lít svo á að Háskóli Íslands og þær dómnefndir sem hann skipar hljóti að vera hæfastar til að leggja mat á þann hóp umsækjenda sem sótti um, að meta hver gegni þessu hlutverki best. Það kom fram — ég tek fram að ég var ekki við umræður í þinginu á sínum tíma, ég var fjarri þá, þannig að ég er ekki nákvæmlega inni í þeim umræðum en það skilst mér þó að hafi komið fram að háskólinn lagði mikla áherslu á að við þessar stöður eins og aðrar væri akademísks hæfis gætt við ráðningu og það mundi ráða ráðningunni fyrst og fremst. Ég ítreka það og ég lít svo á að þau hafi unnið að því.

Mér hefur líka skilist, eftir að staðan var auglýst og í hana ráðið, að sú dómnefnd sem fór með endanlegt val hafi farið sérstaklega út í tenginguna við Vestfirði og lagt á það mikla áherslu að sá eða sú sem yrði ráðin mundi sinna henni, að sjálfsögðu, sérstaklega í sínum störfum, tengja það við Hrafnseyri og setrið þar sem nú hefur verið fært frá forsætisráðuneyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Ég lít því svo á að þessi prófessor muni í störfum sínum hafa mjög miklu hlutverki að gegna, bæði við að efla fræða- og rannsóknastarf á Vestfjörðum og einmitt nýta til þess ekki aðeins háskólastofnanir á svæðinu heldur líka Hrafnseyri og fleiri stofnanir.

Í þessum efnum skal ég ekki segja hvort þetta stendur undir væntingum því að það er í raun og veru spurning hv. þingmanns (Forseti hringir.) því að það er erfitt að greina þær en ég veit þó að lögð var sérstök áhersla á þessa tengingu í því ráðningarferli sem fór fram.