140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

[15:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og ég man þessa tillögu var ekki kveðið á um skyldubúsetu í henni en rætt um tengsl, að það væri mjög mikilvægt að viðkomandi prófessor mundi efla tengsl Vestfirðinga við Háskóla Íslands, að hann mundi sinna kennslu og fræðastörfum fyrir vestan en það var ekki kveðið á um búsetu í tillögunni. Ég ítreka það.

Ég lít svo á og veit það og endurtek það sem ég sagði, að þeir sem stóðu að ráðningunni á vegum Háskóla Íslands lögðu áherslu á að sá einstaklingur sem mundi gegna þessari stöðu mundi sinna því hlutverki að efla háskóla- og rannsóknastarf á Vestfjörðum annars vegar og hins vegar í tengslum við Jón Sigurðsson, að það væri lykilatriði. Ég veit að um það var sérstaklega spurt í þessu ferli öllu og ég ætla að leyfa mér að treysta því að sá sem nú hefur verið ráðinn muni sinna því af stakri natni.