140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum.

[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á síðasta þingi mælti hæstv. menntamálaráðherra fyrir heildstæðu frumvarpi um fjölmiðla. Einn mikilvægur kafli var skilinn eftir, kaflinn um eignarhald á fjölmiðlum. Hæstv. ráðherra boðaði að frumvarp þess efnis yrði lagt fyrir á þessu þingi. Mig minnir að síðasti dagur til að leggja frumvörp fyrir þingið sé í kringum 1. apríl. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður því frumvarpi og meðal annars því frumvarpi sem maður hefur verið að lesa um í fjölmiðlum sem snertir aðkomu Ríkisútvarpsins að auglýsingum á markaði?

Ekki alls fyrir löngu var birtur eigendalisti að fjölmiðlum og þá vil ég í öðru lagi fá skoðun ráðherra á því hvort hann telji heppilegt að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, a.m.k. fjórir, eigi í fjölmiðli sem er virkur á markaði hér á landi. Telur hann þetta í samræmi við það sem segir í rannsóknarskýrslu Alþingis, að í tengslum við fjölmiðlana beri að leita leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun?

Meðal annars er sú krafa gerð til stjórnarformanns útvarpsráðs Ríkisútvarpsins að hann eigi ekki í öðrum fjölmiðli. Það var reyndar brotið núna þegar Vinstri grænir skipuðu sinn mann í ráðið en það var leiðrétt eftir á. Engu að síður er sú regla og krafa skýr til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins. Er ekki eðlilegt að gera svipaðar kröfur til ráðherra um eignarhald í fjölmiðlum, sérstaklega þegar rannsóknarskýrsla Alþingis undirstrikar mikilvægi fjölmiðla og mikilvægi þess að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun?