140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta og væntanlega ekki í síðasta skipti sem við ræðum þetta mál. Ég þakka upphafsmanni umræðunnar sérstaklega fyrir þær spurningar sem hann beindi til ráðherra. Ég hef í tvígang reynt að beina sambærilegum spurningum til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og forsætisráðherra og hef ekki verið sérstaklega sátt við þau svör eða þau viðbrögð sem komið hafa frá stjórnvöldum frekar en hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Það sem hefur að mínu mati einkennt viðbrögð stjórnvalda er fum og fát og menn hafa einhvern veginn verið í biðstöðu. Aldrei hefur komið beint frumkvæði frá stjórnvöldum um hvernig taka á á þessu máli.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag fékk ég „déjà vu“-tilfinningu þar sem við vorum að ræða um flýtimeðferð og möguleika á frestun á nauðungarsölum sem gerðar eru vegna ólögmætra lána. Það er nánast sama umræðan og við áttum fyrir um tæplega tveimur árum síðan þegar fyrstu dómarnir í þessum málum féllu. Það liggur ekki enn þá skýrt fyrir hvers konar afstöðu við eigum að taka þótt við í stjórnarandstöðunni höfum bent á frumvörp sem bæði stjórnarliðar og stjórnarandstaðan hafa flutt.

Á þeim stutta tíma sem ég hef til að ræða um þetta stóra mál vil ég sérstaklega benda á að við verðum að að horfa fram á við. Nú er verið að afgreiða þingsályktunartillögu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um aukna neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég tel mjög brýnt í ljósi reynslunnar á árunum eftir hrun að við förum í heildarendurskoðun á því hvernig við stöndum að neytendavernd á fjármálamarkaði. Bandaríkjamenn hafa þegar gert það með því að setja á fót stofnun sem heitir Consumer Financial Protection Bureau sem hefur að mínu mati mjög mikilvægu (Gripið fram í.) hlutverki að gegna hvað neytendavernd varðar, en á Íslandi kasta eftirlitsstofnanir enn þeim bolta á milli sín, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa og líka ráðuneytið. (Gripið fram í.) Það er algerlega ótækt og þess vegna erum við í þessum vanda núna.