140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:59]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ábyrgðinni á skuldakreppunni hefur verið varpað á lántakendur sem þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Hvert nýtt dómsmál vekur hins vegar upp nýjar spurningar og nýtt dómsmál. Skuldsett fólk sem hvorki hafði þekkingu né fjármagn til að verja hagsmuni sína fyrir dómstólum hefur nú þegar misst eigur sínar vegna ólöglegra gengislána. Eftir dóma Hæstaréttar er ljóst að fjöldi fyrirtækja og einstaklinga sem sett hafa verið í þrot eiga rétt á skaðabótum. Í vikunni á að reyna að sefa reiði þessa fólks og láta þingið samþykkja lengri frest til að höfða skaðabótamál. Nær væri að skylda bankana sjálfa til að taka upp slík mál og greiða skaðabætur. Stjórnarflokkarnir ætla enn og aftur að standa vörð um bankana og leyfa þeim að klára innheimtuaðgerðir hjá þeim sem ekki hafa getað staðið í skilum á til dæmis yfirdráttarlánum vegna gengistryggðra lána.

Frú forseti. Það verður að stöðva allar innheimtuaðgerðir og tryggja þannig að ekki fjölgi í hópi þeirra sem rétt eiga á skaðabótum. Kerfið viðurkennir aðeins einn málsvara lántakenda sem er umboðsmaður skuldara á meðan allar fjármálastofnanir fá tækifæri til að verja hagsmuni sína með hersveit af lögfræðingum. Leikurinn er afar ójafn og hefur ítrekað verið gengið á rétt lántakenda og þeim mismunað. Frú forseti. Ríkisstjórn sem ekki tekur á óréttlætinu með því að láta bankana sækja rétt sinn gagnvart lántakendum er ekki vandanum vaxin.