140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú spurning sem vaknar við nýjasta gengislánadóminn er einfaldlega þessi: Hvaða fordæmi gefur hinn nýi dómur? Hvað mun hann hafa í för með sér? Hverjar verða afleiðingarnar fyrir þá sem við eiga að búa?

Nú virðist það vera nokkuð ljóst og flestir tala um það að dómurinn muni gilda bara um þá sem hafa fengið fullnaðarkvittun. Því hefur hins vegar verið haldið fram að dómurinn gildi ekki bara um einstaklinga, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vitnaði til varðandi álit tiltekins lögmanns, heldur líka um fyrirtæki, stór og smá, hann næði til lána vegna fjármögnunarleigu, kaupleigu, kaupa á húsnæði og hvers konar lánsfjármögnunar fyrirtækja. Ef þetta er niðurstaðan er ljóst að búið er að þrengja nokkuð hópinn, og þá þurfa menn að vinna í samræmi við það. Og þá vakna líka mjög margar spurningar eins og t.d. þessar:

Hvað með þá sem hafa fengið frystingu á lánunum sínum?

Hvað með þá sem voru í greiðsluskjóli af hvaða toga sem er?

Hvað með þá sem gátu einfaldlega ekki greitt vegna þess að þeir höfðu ekki efni á því, eða borguðu að hluta, borguðu tilteknar greiðslur en ekki aðrar?

Þetta eru allt spurningar sem vakna í framhaldi af þessu öllu saman.

Þess vegna er alveg ljóst að dómurinn svarar ekki, hann er ekki fordæmisgefandi fyrir þá einstaklinga eða fyrirtæki sem kunna að vera í annars konar stöðu en þeirri að hafa borgað að fullu það sem var rukkað.

Því er ljóst að fram undan er röð af dómstólamálum. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talaði um 100 mál þar sem gengistrygging kæmi við sögu, bara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur — 100 mál. Því er ljóst af þessu að óvissa mun ríkja áfram því að hvert og eitt slíkt mál tekur eitt og hálft til tvö ár í meðferð dómstólanna. Hvað þýðir það? Það þýðir eftirfarandi:

Almenningur veit ekki hvar hann stendur.

Fyrirtækin eiga erfiðara með að fá lán.

Fjármálafyrirtækin sjálf verða með óljósan efnahagsreikning, það mun hafa áhrif á lánsfjármögnun þeirra og erfitt hlýtur að vera fyrir þau fyrirtæki að leita sér fjármagns á erlendum mörkuðum eins og þau höfðu boðað að þau ætluðu að gera.

Þess vegna er það algjörlega óviðunandi að ekki sé búið að afgreiða (Forseti hringir.) frumvarp varðandi flýtimeðferð á gengislánum. Það var lagt fram 24. júní 2010. Það má vel vera að gera þyrfti á því einhverjar breytingar. Þá hefðu menn átt að fara í þá vinnu, að gera þær breytingar. En það er ekki afsökun fyrir því að sitja með hendur í skauti og láta málið síðan velta yfir sig með þessum hætti og skapa (Forseti hringir.) óvissu. 100 mál og enginn veit í raun og veru hver staðan er eftir allt saman.