140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa umræðu.

Það er rétt sem komið hefur fram hjá mörgum þingmönnum að í kjölfar hæstaréttardómsins kom það berlega í ljós hversu illa undirbúið Fjármálaeftirlitið og framkvæmdarvaldið var við viðbrögðum við þeim dómi. Ég vil geta þess að í febrúar árið 2010 lagði Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ásamt fleiri þingmönnum fram frumvarp á Alþingi um flýtimeðferð í ljósi þeirrar óvissu sem þá ríkti vegna tveggja mismunandi dóma í héraði. Við framsóknarmenn vildum fara þá leið til að reyna að flýta fyrir þeim málum, það var árið 2010, nú er árið 2012. Ef við förum ekki að grípa til aðgerða til að flýta fyrir ferli þessara mála getum við þurft að bíða jafnvel fram til ársins 2013, sem er gjörsamlega óásættanlegt fyrir þá einstaklinga sem hafa ranglega verið að greiða allt of háa vexti af gengisbundnum lánum, enda var dómur Hæstaréttar á þann veg að það væri ólöglegt að reikna afturvirkt með vöxtum Seðlabanka Íslands í stað þess að horfa til samningsvaxtanna.

Við þurfum að horfa til framtíðar og ná niðurstöðu í því til að koma alvöruneytendavernd á fót sem hefur skort á í aðdraganda hrunsins og kannski ekki hvað síst eftir hrun. Við þurfum að breyta hugsunarhættinum. Við þurfum að auka réttindi einstaklinga á fjármálamarkaði gagnvart fjármálafyrirtækjum, því að eins og hér hefur komið fram eru einstaklingar á Íslandi að berjast fyrir réttindum sínum gegn mjög öflugu liði lögfræðinga sem bankarnir hafa í vinnu fyrir sig. Við þurfum því að styrkja lántakendur hér á landi sem hafa verið vissulega beittir órétti. Það er algjörlega óviðunandi að við náum ekki niðurstöðu í því að koma þeim málum í sæmilegt horf (Forseti hringir.) og að ná að flýta úrvinnslu þeirra. Það er verkefni okkar í dag.