140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi yfirfærsluverð gengistryggðra lána milli gömlu og nýju bankanna eru það nú ekki nýrri upplýsingar en svo að þær komu fram í þeirri skýrslu í aprílmánuði 2011 sem ég vitnaði til áðan.

Ég vil í öðru lagi þakka þessa umræðu, að sjálfsögðu. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir mikilvægi þess að fara yfir meðal annars þá hlið þessara mála allra sem snýr að neytendum og neytendavernd á fjármálamarkaði. Auðvitað voru menn á ýmsa vegu vanbúnir á því sviði eins og svo mörgum öðrum þegar ósköpin dundu hér yfir. Ýmislegt hefur verið gert með stofnun umboðsmanns skuldara, með eftirlitsnefndum og öðru slíku, fyrir utan hið lögbundna hlutverk sem aðilar eins og Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa og talsmaður neytenda hafa. En ég held að það sé alveg ljóst að eitt af því sem þarf að fara yfir í heild og endurskoða á fjármálamarkaðnum, samanber þá skýrslu sem kemur fram á næstu dögum, er staða neytenda í þessu samhengi öllu saman og hvað þurfi að gera til að tryggja hana betur en áður hefur verið. Þótt neytendavernd á þessu sviði sé að finna í ýmsum sérlögum um lánasamninga, sölur og ýmislegt slíkt vantar heildstæða mynd.

Í öðru lagi eins og hér hefur komið fram er það auðvitað lán í óláni að bankarnir eru mjög sterkt fjármagnaðir. Þeir ráða við þetta áfall sem vissulega er talað um að geti hlaupið á tugum milljarða, enda eiga þeir að gera það. Ég legg áherslu á að öllum og auðvitað sérstaklega fjármálafyrirtækjunum ber sú skylda að vinna eins hratt úr þessum málum og nokkur kostur er. Það er í þágu allra. Heimilin, neytendurnir eiga rétt á því og fjármálafyrirtækin þurfa þess sjálf að slíkri óvissu verði eytt sem hraðast og efnahagsreikningur þeirra komist á fast.

Í þriðja lagi er það þjóðhagslega mikilvægt og fyrir endurreisn efnahagslífsins að þessi óvissa þvælist ekki meira fyrir okkur en mögulegt er, nóg er nú samt. (Forseti hringir.) Það er allra hagur að úr þessum málum verði unnið eins hratt og mögulegt er og að sjálfsgöðu verður allt gert til þess að stuðla að því.