140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

kynheilbrigði ungs fólks.

451. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í skýrslu um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára sem var unnin á vegum starfshóps hjá hæstv. velferðarráðherra komu fram mjög miklar upplýsingar um heilbrigði ungra Íslendinga. Almennt má segja að niðurstöður skýrslunnar sýni að íslensk ungmenni séu upp til hópa heilbrigð og standi sig vel miðað við jafnaldra sína í samanburðarlöndum, standi vel hvað það varðar að flestu leyti. Þó eru undantekningar á því og ég vil sérstaklega einmitt ræða þær upplýsingar við hæstv. ráðherra.

Í köflunum um kynheilbrigði og kynhegðun íslenskra ungmenna er að finna upplýsingar sem ollu mér verulegum áhyggjum. Þar kemur fram að ungt fólk byrjar tiltölulega snemma að stunda kynlíf, sérstaklega er talað um að fjöldi rekkjunauta sé með því hæsta í samanburði við Norðurlöndin, en að sama skapi er notkun smokka í yngsta aldurshópnum einna minnst hér á landi á Vesturlöndum og ýmsir kynsjúkdómar þar af leiðandi algengastir hér. Meðal annars þess vegna hefur ekki gengið nægilega vel, vænti ég, að draga úr nýgengi klamydíu og í mörg ár hefur tíðni hennar verið hærri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Tíðni kynfæravartna af völdum human papilloma vírussins meðal kvenna 18–45 ára er um 12% sem er nokkuð hærri tíðni en meðal kynsystra okkar á Norðurlöndunum en Norðmenn voru með lægstu tíðnina, 10%.

Svo virðist líka sem tíðni barneigna hér sé nokkuð hærri en annars staðar á Norðurlöndunum. Þarna er talað um mikil tengsl á milli áfengisneyslu og þess að byrja að stunda kynlíf snemma.

Þetta eru ekki beint nýjar upplýsingar þó að þetta hafi kannski verið nýjar upplýsingar fyrir okkur þingmennina sem fengum mjög góða umfjöllun um þetta í velferðarnefnd. Forverar okkar á þingi hafa ítrekað bent á að þetta sé verulegt áhyggjuefni og ekki hefur verið brugðist við þessu af nægilegri hörku, að mínu mati, við höfum ekki tekið nógu ákveðið á þessu.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir lagði á sínum tíma fram þingsályktunartillögu um mikilvægi þess að setja á stofn unglingamóttöku og ódýrari og ókeypis getnaðarvarnir fyrir ungt fólk. Hv. þm. Ásta Möller lagði til að komið yrði á heilsuvernd í framhaldsskólum. Ég hef nú lagt fram frumvarp um lækkun virðisaukaskatts á smokkum, auk þess sem ég hef velt fyrir mér hvort við gætum að einhverju leyti lækkað líka verð á hormónagetnaðarvörnum sem eru niðurgreiddar af ríkinu.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) bregðast við þessum upplýsingum um ástand kynheilbrigðis ungs fólks í sinni eigin skýrslu? Eigum við eftir að fá svona skýrslu í hendurnar á næsta ári og svo þarnæsta eða er kominn tími til að við förum að gera eitthvað í þessu?

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að virða tímamörk.)