140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

kynheilbrigði ungs fólks.

451. mál
[16:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir spurninguna sem ítrekað hefur einmitt rætt þessi mál og vakið athygli á því hvar við stöndum í samanburði við Norðurlöndin, m.a. varðandi kynheilbrigði ungs fólks og hegðun okkar unga fólks á því sviði. Ég tek þó undir að úr þeirri skýrslu sem hér er til umræðu og var birt í september sl. er ástæða til að halda því til haga eins og fram kom hjá hv. þingmanni að þar er meginniðurstaðan sú að við búum við afar öflugt heilbrigðiskerfi.

Þarna er þó einn af veikleikunum í kerfinu. Í skýrslunni er rakin staða einstakra málaflokka sem snúa að heilbrigði og lífsstíl ungs fólks og í þeim kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um kynheilbrigði er það skoðað út frá tíðni klamydíusýkingar, algengi kynfæravartna, barneignum og fóstureyðingum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Klamydía er algengasti tilkynningarskyldi kynsjúkdómurinn hér á landi en sé klamydían ómeðhöndluð er meðal annars hætta á ófrjósemi.

Árið 2010 greindust fleiri með klamydíu en nokkru sinni fyrr, samtals 2.211 manns, og voru tæplega þrír fjórðu hlutar á aldrinum 15–24 ára og konur í meiri hluta.

Íslensk heilbrigðisáætlun til ársins 2010 hafði að markmiði að draga úr nýgengi klamydíu um 50% en því hefur alls ekki verið náð. Þær aðgerðir sem helst geta snúið þessu vandamáli til betri vegar eru ábyrgt kynlíf og notkun smokka, en auðvitað þarf þá betri fræðslu og ráðgjöf til að sú aðferð virki.

Talið er að um 80% þeirra sem stunda kynlíf smitist af HPV-veirunni einhvern tímann á ævinni. Til að bregðast við þessum vanda hófst á síðasta ári HPV-bólusetning og hefur í vetur, 2011–2012, öllum stúlkum sem fæddar eru 1998 og 1999 verið boðin bólusetning. Hún verður í framtíðinni hluti af almennum bólusetningum stúlkna í 7. bekk.

Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að barneignum í yngsta aldurshópnum hefur fækkað hér á landi á undanförnum árum. Tíðni er þó enn mun hærri en annars staðar á Norðurlöndunum, einkum í yngsta aldurshópnum.

Fóstureyðingum á Íslandi hefur líka fækkað nokkuð og hefur orðið umtalsverð fækkun í aldurshópnum 15–19 ára síðustu tíu árin.

Í fyrrahaust fór fram fyrirtaka vegna framkvæmdar Íslands á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Í niðurstöðu nefndarinnar er meðal annars lýst áhyggjum af tiltölulega miklum fjölda þungana og fóstureyðinga meðal stúlkna undir 18 ára aldri sem kann að mati nefndarinnar að vera vegna almenns skorts á þekkingu um kynheilbrigði, aðgengis að getnaðarvörnum og ráðgjafarþjónustu um kynheilbrigði.

Til að bregðast við þessum vanda hef ég þegar kynnt það að á yfirstandandi þingi muni ég leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lyfjalögum sem heimila hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Meginmarkmið þessarar breytingar er að auka aðgengi að getnaðarvörnum samhliða ráðgjöf og fræðslu um kynheilbrigði. Þetta frumvarp er núna til umsagnar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna.

Þá er á Landspítala starfandi sérstök móttaka fyrir ungar stúlkur sem fara í fóstureyðingar þar sem veitt er ráðgjöf og eftirfylgni.

Í umræddri skýrslu er einnig sérstakur kafli um kynhegðun ungs fólks á Íslandi, en kynhegðun og kynheilbrigði er nátengt eðli málsins samkvæmt.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fólk á Íslandi byrjar tiltölulega snemma að sofa hjá, sérstaklega stúlkurnar, en því fyrr sem byrjað er að stunda kynlíf því meiri líkur eru á neikvæðum afleiðingum þess. Stúlkur á Íslandi eiga líka fleiri bólfélaga en stúlkur annars staðar á Norðurlöndunum.

Eins og hv. þingmaður nefndi hefur áfengisneysla unglinga sterk tengsl við það að byrja snemma að stunda kynlíf. Þá sýna niðurstöður rannsókna jafnframt að áfengisneysla tengist því að nota ekki smokk og því að sjá eftir kynmökum næsta dag. Árin 2009–2010 var fjöldi þeirra sem notaði smokk við síðustu samfarir aðeins 62% hjá íslenskum unglingum.

Notkun hormónagetnaðarvarna er lægst hér á landi af Norðurlöndunum en sala neyðargetnaðarvarna næsthæst.

Grundvallaratriðið í að bæta kynheilbrigði ungs fólks er fræðsla, bæði um kynheilbrigði en líka þætti sem snúa að ábyrgu vali, lífsstíl og því að styrkja sjálfsmynd. Þar gegnir skólakerfið stóru hlutverki því að það nær til ungs fólks á ólíkum þroskastigum sem býr við mismunandi aðstæður.

HOFF nefnist samstarf sem snýr að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskólum. Eitt af stefnumiðum þess er að efla kynheilbrigði. Samstarfsverkefni embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heildræna heilbrigðisfræðslu, svokallað 6H-verkefni, hefur kynheilbrigði sem einn af efnisþáttum sínum.

Þá má geta þess að nýlega var lokið gerð kynfræðsluefnis fyrir nemendur í framhaldsskólum sem miklar vonir eru bundnar við og að það verði notað til kennslu.

Ég kem að frekari þáttum í síðara svari mínu en tek undir að auðvitað þyrfti að efla hjúkrun í framhaldsskólum sem hluta (Forseti hringir.) af þessum aðgerðum.