140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:24]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu. Það eru tvö atriði sem mig langaði til að koma örstutt inn á. Annað er að spyrja hæstv. ráðherra um hvort fram fari og hvort fyrir liggi ákveðnar áætlanir um athuganir og rannsóknir á því hverju ferðamennskan skilar okkur í raun og veru og þá jafnt á sumri sem vetri. Síðan langaði mig til að leggja mikla áherslu á gildi íslenska hestsins í ferðamennsku á Íslandi sem ég held að við gerum aldrei nógu mikið úr og hægt er að nýta þann fjársjóð sem við eigum þar jafnt að vetri sem sumri. Minni ég þar á að einstaklingar og félagasamtök halda uppi keppni á ís vítt og breitt um landið. Ferðamenn hafa áhuga á að kynna sér uppruna, uppvöxt og uppvaxtarskilyrði íslenska hestsins. Ég held að þarna eigum við algjöra sérstöðu og mikinn auð sem við eigum að horfa sérstaklega til hvað varðar ferðamennsku.