140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann leggur áherslu á greiningar og stefnumörkun þegar kemur að íþróttaferðamennsku. Ríkisstjórnin samþykkti í tengslum við almenna kjarasamninga 5. maí 2011 yfirlýsingu um árlegt framlag til að efla vetrarferðaþjónustu, með fyrirvara um samþykki Alþingis auðvitað, enda kæmi sambærilegt mótframlag frá hagsmunaaðilum. Ísland – allt árið er samstarfsverkefni sem ríflega 130 fyrirtæki koma að, en samstarfsaðilar beita sér fyrir fjölþættri stefnumótun, þróunarvinnu og ákvörðunum sem styðja við markmið átaksins og það er miðað við að ríkið og samstarfsaðilar leggi sameiginlega 600 millj. kr. árlega til verkefnisins í þrjá vetur. Það er auðsýnt að í þeirri vinnu verður auðvitað lögð áhersla á íþróttaferðamennsku, þ.e. vetraríþróttirnar og eins golfferðamennsku og hestaíþróttir sem hér hafa verið nefndar.

Í þessu verkefni er meðal annars horft til úrvinnslu og niðurstaðna úr verkefninu Vetrarferðaþjónusta, sem unnið var sumarið 2011 af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu auk ráðuneytis ferðamála. Ísland – allt árið hefur orðið að yfirheiti á víðtæku umbreytingaferli sem leggur grunn að ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugrein og tel ég að það sem hv. þingmaður kom að hér áðan geti vel og muni falla undir það átak.