140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[17:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við framsóknarmenn höfum ákveðið að liðka til fyrir afgreiðslu þessa máls sem snertir umdeild gjaldeyrishöft sem við höfum talað fyrir í á þriðja ár að eigi að afnema hið allra fyrsta. Því miður er með þessu frumvarpi verið að ganga í þveröfuga átt og verið að herða enn frekar á gjaldeyrishöftunum. En í ljósi þess hvernig þetta mál er vaxið og eftir kynningu sem við fengum í efnahags- og viðskiptanefnd í aðdraganda þessa máls munum við ekki standa í vegi fyrir því, í ljósi eðli málsins, að það fái afgreiðslu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt hér fram.

Við áteljum hins vegar harðlega þau vinnubrögð sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að temja sér í þessu máli. Málið kemur fram með mjög stuttum fyrirvara og þessari tegund afgreiðslu mála á Alþingi verður að linna.