140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hjartanlega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að gjaldeyrishöftin eru stórkostlega skaðleg. Þau eru berlínarmúr Íslands. Það getur auðvitað verið skjólsælt bak við múrinn til skemmri tíma í óblíðum veðrum, en til langframa spilla þau frjálsum viðskiptum og samkeppnishæfni landsins og grafa undan efnahagsstarfseminni og lífskjörum yfirleitt.

Hvers vegna höfðu menn ekki afborganirnar inni þegar þeir lögðu af stað? Trúlega hafa menn vanmetið það hversu stór þáttur þær væru í málinu öllu.

Hvort menn hafa notað þessa leið sem hringekju eins og hv. þingmaður lýsir, og leitast við að hagnast með því að fara inn og út og hoppa hringinn í kringum höftin — hafi menn verið í slíkri hringekju þá er eðli hennar slíkt að aki menn mjög hratt og ógætilega getur auðvitað komið að því að hringekjan stöðvast og menn falla af henni.