140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þeim sem töluðu strax haustið 2008 fyrir nauðsyn gjaldeyrishafta, í öðru formi þó. Ég taldi rétt að við mundum skattleggja með mjög háum skatti útstreymi fjármagns. En í stað þess að fara þá leið voru sett boð og bönn. Þau boð og bönn hafa reynst hriplek og oftar en einu sinni hefur þurft að herða gjaldeyrishöft. Ég hef meðal annars tekið þátt í því að samþykkja slíkar lagabreytingar, en nú er ég að fyllast efasemdum um að rétt sé að halda áfram á þessari braut vegna þess að allar lagabreytingar til að herða höftin virðast fram til þessa að minnsta kosti hafa gefið stjórnarmeirihlutanum leyfi til að fresta nauðsynlegum aðgerðum til að leysa gjaldmiðilskreppuna. Það eru að verða komin fjögur ár frá hruni, við erum enn þá með sama tækið til að fresta vandanum sem eru lög sem banna útstreymi fjármagns. Nú á enn á ný að samþykkja lagabreytingu sem takmarkar útstreymið.

Ég er komin hingað upp til að spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvaða áhrif þessi lagabreyting muni hafa á Icesave-skuldbindingu okkar. Nú hefur flokkur hv. þingmanns haft miklar áhyggjur af því að þingið vilji ekki standa við skuldbindingar við innstæðueigendur sem áttu inneignir inni á Icesave-reikningunum. Með öðrum orðum, er verið á einhvern hátt að koma í veg fyrir að (Forseti hringir.) Landsbankinn geti staðið við Icesave-skuldbindingarnar með þessu?