140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér eru stærri viðfangsefni á ferð en svo að ég fái þeim svarað á 60 sekúndum. En ég hygg að margar vísbendingar séu í þá átt að það muni taka okkur lengri tíma að leysa úr þessum vanda, aflandskrónunum, en bjartsýnustu menn höfðu áður þorað að vona. Það sé jafnvel viðbúið að hér þurfi að framlengja þau höft sem lögfest voru til 2013, og að við þurfum kannski að leggja áherslu á það að létta höftunum af fólki og fyrirtækjum í landinu, en fást sérstaklega við þennan uppsafnaða vanda og að leysa úr honum í skrefum og áföngum yfir lengri tíma. Það er sannarlega ekki áhlaupsverk. Það verður ekki unnið á einni nóttu. Ég tel að þessi löggjöf muni hjálpa okkur við að gera það með skipulegum hætti og eins farsælum og kostur er í þessari þröngu stöðu.