140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það síðarnefnda. Frumvarpið er unnið í góðu samráði við Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Við áttum fund í morgun, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, seðlabankastjóri, ég og ýmsir fleiri aðilar sem að málinu koma, og ræddum nokkuð hvernig farsælast væri að standa að flutningi málsins. Vegna þess knappa tímaramma sem uppi var þótti heppilegast, og það þannig gert í góðu samráði, að nýta þann möguleika að meiri hluti nefndar flytti málið eftir lokun markaða í dag og það gert að lögum fyrir kvöldið en ekki beðið ríkisstjórnarfundar á morgun. Þessar upplýsingar sem eru viðkvæmar upplýsingar á markaði ættu ekki að ganga milli manna að óþörfu í meira en sólarhring. Fyrir því eru fjöldamörg fordæmi að nefndir flytji mál í samráði við ráðherra til að greiða fyrir framgöngu þeirra í þinginu. Það er bara tilurð þessa máls eins og ýmissa annarra þingmála sem nefndir flytja ef ráðherrar leita eftir því eða telja að þannig geti þau gengið hraðast.

Hvað varðar síðan höftin sjálf og hvort þar sé ekki allt komið í óefni vegna stefnu ríkisstjórnarinnar held ég að það sé erfitt að kenna ríkisstjórninni um þá snjóhengju sem hún fékk í arf. Ég held hins vegar að það sé nokkuð augljóst að óhófleg bjartsýni, m.a. ýmissa aflandskrónueigenda, um það hversu fljótt muni takast að vinna úr þessu hafi leitt til þess að allt of lítil þátttaka hafi verið til dæmis í útboðum (Forseti hringir.) Seðlabankans og að það þurfi sannarlega meira raunsæi í þessa stöðu til að það megi (Forseti hringir.) vinna úr henni með bærilegum hætti í nánustu framtíð.