140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þetta innlegg. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra bendir á, að við ræðum hér mjög viðkvæm málefni sem skýrist þá af því að við erum að taka þetta mál á dagskrá Alþingis eftir að markaðir loka. Afnám gjaldeyrishafta og gjaldeyrishöftin og staða gjaldmiðilsins er viðkvæm eins og hæstv. ráðherra hefur bent á. Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um skoðun hans á því hvernig forustumenn þjóðarinnar eigi að ræða um það mikilvæga mál sem gjaldmiðill þjóðarinnar er, hvort það sé ekki hlutverk ráðherra í ríkisstjórn Íslands að tala gjaldmiðil okkar, íslensku krónuna, frekar upp en niður. Það er forsenda afnáms gjaldeyrishafta að það sé traust á gjaldmiðli íslensku þjóðarinnar.

Ég tel því mikilvægt að frá ríkisstjórninni, stjórnvöldum landsins, komi þau skilaboð að við stefnum að afnámi gjaldeyrishafta og að við höfum trú á þeim gjaldmiðli sem við búum við í dag. Við eigum að tala gjaldmiðilinn upp en ekki niður. Ég held að mikilvægt sé að hæstv. ráðherra komi með þau skilaboð inn í opinbera umræðu að við stefnum að því að afnema gjaldeyrishöftin og að við höfum til framtíðar trú á gjaldmiðli okkar, sem er íslenska krónan. Þess vegna finnst mér mikilvægt að nefna það — í ljósi þess að hæstv. ráðherra benti réttilega á það hér áðan að við ræðum mjög viðkvæm mál — hvort ekki sé rétt að forustumenn þjóðarinnar tali gjaldmiðilinn upp frekar en niður á tímum sem þessum.