140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, það kemur margt til greina þegar kemur að gjaldmiðilsmálum okkar Íslendinga þegar við horfum til framtíðar. Þar höfum við framsóknarmenn talað fyrir því að það sé mikilvægt að útiloka ekkert í þeim efnum. En staðreynd málsins er sú að í dag búum við við gjaldmiðil sem heitir íslensk króna. Ef forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala ekki með þeim gjaldmiðli og við teljum Íslendingum og öðrum þjóðum ekki trú um að það sé sá gjaldmiðill sem við stöndum á bak við, erum við í verulega vondum málum. Þar vil ég vitna til orða sjálfs forsætisráðherra á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar um helgina. Þar sagði sjálfur forsætisráðherra þjóðarinnar efnislega að við gætum ekki búið við þessa krónu. Hvaða skilaboð eru það til alþjóðasamfélagsins þegar forsætisráðherra þjóðarinnar talar þannig um eigin gjaldmiðil efnislega að hann sé einfaldlega ekki nothæfur? Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það að búa við forustu í ríkisstjórn þar sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kemur fram fyrir alþjóð og segir bæði við alþjóð og alþjóðasamfélagið að sá gjaldmiðill sem við búum við sé ekki nothæfur. Það er einfaldlega ekki boðlegt.

Ég fagna því að það er þó alla vega áherslumunur á milli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að umræðu um svo viðkvæmt mál sem gjaldmiðillinn er, vegna þess að okkur ber skylda til þess að hafa ákveðna framtíðarsýn þegar kemur að efnahagsmálum Íslendinga, ekki síst á þessum tímum — og ég get svo sem tekið undir það, við eigum ekkert að tala krónuna upp í hæstu hæðir, en það er lágmarkskrafa sem við getum gert til hverrar ríkisstjórnar að menn sendi út þau skilaboð að við höfum trú og traust á framtíðina og þar með talið undirstöðu efnahagslífsins sem gjaldmiðillinn okkar er.