140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um mál 608 sem finna má á þskj. 964.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fundað í því hléi sem staðið hefur frá fundi okkar síðdegis og fengið á sinn fund fulltrúa réttarfarsnefndar, fulltrúa frá slitastjórnum föllnu bankanna, fulltrúa frá Kauphöll Íslands, frá aðilum vinnumarkaðarins, Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Málið sem hér er til umfjöllunar er í eðli sínu tvíþætt, það varðar annars vegar þrotabú, einkum þrotabú gömlu bankanna á Íslandi, og hins vegar glufu sem verið hefur á gjaldeyrishöftunum sem nauðsynlegt er að bregðast við. Ég mun fjalla um þau álitaefni sem varða hvorn þátt sérstaklega.

Fram kom í máli fulltrúa slitastjórnanna fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að við það að fella brott þá undanþágu sem um þær hefur gilt hvað varðar gjaldeyrishöftin skapaðist óvissa um stöðu þeirra í framhaldinu, óvissa sem skýra þyrfti fyrir miklum fjölda kröfuhafa og mikilvægt væri að ætlunin varðandi að taka eignir hinna föllnu banka undir höftin væri ljós og hvaða reglur mundu gilda þar um. Til að mæta þeim sjónarmiðum sem þar komu fram hafa staðið yfir viðræður í þinghúsinu við fulltrúa slitastjórnanna af hálfu Seðlabankans og efnahags- og viðskiptaráðuneytis, sem við höfum komið að í efnahags- og viðskiptanefnd, um nánari afmörkun á því hvað ætlað er að taka undir gjaldeyrishöftin með frumvarpi þessu. Öllum hefur verið ljóst og má vera ljóst að hér á landi verður aldrei losað um eignir þessara kröfuhafa, svo stórar fjárhæðir sem um er að tefla, nema með góðu samráði og skipulagi á því í hvaða áföngum það gerist og hvernig.

Öðru máli getur hins vegar gegnt um lausafjárinnstæður hinna föllnu banka erlendis sem erlendir kröfuhafar eiga og hafa í raun enga viðkomu hér. Sömuleiðis geta önnur sjónarmið verið uppi um erlendar innstæður þeirra aðila í Seðlabanka Íslands sem eru í fullum færum að reiða af hendi þá fjármuni sem þar eru inni á reikningum. Þess vegna kemur til skoðunar á milli 2. og 3. umr. að fella þessa tvo þætti undan höftunum ef samkomulag næst um útfærslu þess á milli aðila meðan umræðan fer fram. Væri þá mestu áhyggjunum mætt sem vöknuðu hjá fulltrúum slitastjórna að málinu. Miðað við eðli máls og aðstæður væri það fullnægjandi umbúnaður um þessa aðgerð. Þá væri tryggt að þær verulegu stöður sem eru hér innan lands á vegum þessara þrotabúa fara undir höftin og þurfa að sæta sömu leikreglum og aðrir sem undir þeim eru og leita til Seðlabankans eftir samþykki fyrir þeim tilflutningi fjármagns sem óskað er svo hér megi hafa góða stjórn á gjaldeyrisstreymi.

Ég vonast til að geta kynnt breytingartillögu við 3. umr. sem þrengir lítið eitt umfang þessarar aðgerðar gagnvart hinum föllnu bönkum, en eins og þingmönnum er kunnugt er megintilgangur þess að fella úr gildi undanþágu frá banni en bannið hefur auðvitað verið meginreglan. Ég undirstrika að það að fella á brott undanþágu rýrir ekki með neinum hætti eignarréttindi þeirra sem þarna eiga í hlut. Hins vegar er um að ræða þá staðreynd að önnur undanþága hefur skapað glufu á gjaldeyrishöftunum sem lýtur að því að afborganir og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa hafa verið undanþegnar banninu. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að sú undanþága falli brott. Það hefur verið algerlega ljóst frá því að lögin voru sett, það er áréttað í nefndaráliti okkar og sömuleiðis í því lögfræðiáliti sem Seðlabanki Íslands lagði fram í nefndinni síðdegis vegna þeirra áhyggna sem fram komu hjá einstaka nefndarmönnum og lutu að eignarréttarþættinum, að meginmarkmið gjaldeyrishaftanna er að koma í veg fyrir að menn geti losað stöður sínar í íslenskum krónum fyrr en ella með bönnum. Á þeim eru og hafa verið einstaka undanþágur en yfirlýst hefur verið allt frá upphafi að allra leiða verði leitað til að koma í veg fyrir að menn geti losað stöður sínar í íslenskum krónum fyrr en ella. Takist mönnum það grefur það undan gengi íslensku krónunnar og tiltrú á því að þessari þjóð takist að brjótast út úr höftum, það veikir gengi krónunnar og stuðlar þar með að verðóstöðugleika og dregur úr lífskjörum.

Nokkuð var rætt um hvort takmarka mætti aðgerðirnar við þau bréf sem eftir á að gefa út með þessum hætti en láta þær ekki ná til þegar útgefinna bréfa. Þegar við fjöllum um þetta mál í dag er algerlega óljóst hversu lengi gjaldeyrishöft munu þurfa að vera í landinu. (Gripið fram í.) Miðað við þann gríðarlega fjölda skuldabréfa sem gefinn hefur verið út og gæti þess vegna verið yfir langan tíma er um slíkar fjárhæðir að ræða að það gerir það algerlega útilokað að undanskilja þegar útgefin bréf því að fallið sé frá þessari undanþágu. Öllum aðilum hefur mátt vera ljóst og það er margyfirlýst af hálfu stjórnvalda að þegar leitað er leiða til sniðgöngu á gjaldeyrishöftum, þegar menn finna leiðir til þess að losa um stöður sínar í íslenskum krónum fyrr en ella með tilteknum fjármálagjörningum, sé þess að vænta að löggjafinn bregðist við með breytingu á lögum með því að fella burt undanþágur. Ég legg áherslu á að hér er um undanþágur að ræða, við erum að fella á brott undanþágur þannig að hinar almennu reglur gilda um þessa aðila. Það er deginum ljósara að þeir sem halda á íslenskum skuldabréfum sem notið hafa þessarar undanþágu munu auðvitað fá þau íslensku skuldabréf að fullu greidd. Þeir munu fá verðbætur greiddar á þessi skuldabréf, þeir munu fá vexti greidda á þessar fjárhæðir. Þeir þurfa hins vegar, eins og allir aðrir vegna hins almenna banns, að sæta takmörkunum á því hvaða hluta þessara greiðslna þeir geta ráðstafað til kaupa á erlendri mynt. Það bann kemur ekki til af góðu. Það er í raun neyðarúrræði vegna þess að ef slíkt bann væri ekki í gildi og ef því væri ekki fylgt fram af festu og ákveðni þannig að trúverðugt sé að gjaldeyrishöftin haldi og gengi krónunnar standist mundi það hafa í för með sér verulega alvarlega og djúpstæða efnahagslega erfiðleika. Það mundi ekki aðeins bitna á íslensku samfélagi heldur líka á þeim sem við ræddum um í upphafi þessarar umræðu, þ.e. þeim sem eiga inni kröfur sem þeir þurfa að geta losað út, og skyndileg veiking krónunnar vegna ónógs umbúnaðar um gjaldeyrishöftin bitnar auðvitað líka á hagsmunum þeirra.

Að þessu öllu samanlögðu er það niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að leggja til við 2. umr. að frumvarpið verði samþykkt eins og nefndin lagði það fram fyrr í dag óbreytt en með þeim fyrirvara þó að ég vonast til þess að geta flutt breytingartillögu við 3. umr. sem lýtur að umtalsverðum hagsmunum fyrir slitastjórnirnar en varðar í engu fyrirætlanir stjórnvalda með lagafrumvarpi þessu.