140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[22:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fundað um málið í dag, á nokkrum styttri fundum getum við sagt með hinum ýmsu hagsmunaaðilum og umsagnaraðilum. Við höfum hitt Samtök atvinnulífsins og Kauphöllina, við höfum hitt skilanefndir bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans. Jafnframt höfum við hitt Seðlabankann og fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytisins auk ASÍ og Ásu Ólafsdóttur, lögfræðing frá réttarfarsnefnd.

Flestallir þessir aðilar, þ.e. fyrir utan Seðlabankann og ráðuneytið, eru á því að þetta mál sé óráð, málið muni festa enn frekar í sessi þau gjaldeyrishöft sem við búum við og að við séum að fara enn lengra út á foraðið með því að samþykkja málið. Jafnframt hefur fulltrúi frá réttarfarsnefnd bent á að þetta gæti skapað ríkinu skaðabótaskyldu, sem er reyndar í mótsögn við álit lögfræðings Seðlabankans, en varnaðarorð hennar hafa reynst okkur ágætlega til þessa þótt ekki hafi kannski alltaf verið hlustað á þau. Ég held því að full ástæða sé til að hlusta á þessi varnaðarorð.

Vandamálin sem við virðumst standa frammi fyrir eru þau að erlendir aðilar hafa verið að kaupa húsnæðisbréf upp í stórum stíl og þá sérstaklega einn flokk, flokk sem er með lokagjalddaga árið 2014. Eðli þeirra bréfa er þannig að borgaðir eru af höfuðstól vextir og verðbætur sem þessir aðilar geta síðan flutt úr landi. Næsta miðvikudag verður annar af tveimur gjalddögum á þessu ári af þessum bréfum sem þýðir að 7 milljarðar flytjast þá væntanlega úr landi. Jafnframt hafa umræddir aðilar verið að fjárfesta í öðrum skuldabréfaflokkum en þó í mun minna mæli.

Þá hefur komið í ljós að einhver fjármálafyrirtæki eru að bjóða upp á eða hyggjast bjóða upp á afleiður á þessi húsnæðisbréf til að geta selt það til útlendinga sem svona er statt fyrir og þetta hefur leitt til þess að Seðlabankinn hefur fyllst miklum ótta yfir að miklir peningar geti ruðst úr landi. Við í nefndinni höfum bent á hvort það væri þá ekki einfaldlega bara auðveldara að banna slíkar afleiður eða útgáfu slíkra skuldabréfa þannig að þetta yrði einskorðað við húsnæðisbréf vegna þess að við höfum séð það eins og margir aðrir að viss afturvirkni er í þessum lögum. Hér hafa aðilar verið í góðri trú að kaupa bréf með það fyrir augum að flytja höfuðstól, vexti og verðbætur úr landi á gjalddaga, en tveim dögum fyrir endanlegan gjalddaga kemur ríkið inn og setur lög sem banna þetta.

Vandamálið, ef vandamál skyldi kalla, er ekki nýtt af nálinni vegna þess að alveg síðan í mars á síðasta ári hefur verið ljóst að erlendir aðilar hafa verið að kaupa upp sérstaklega einn flokk húsbréfa, sem er þessi svokallaði HFF 14-flokkur. Nú er svo komið að þeir aðilar eiga 75% af þeim flokki beint. Kunnáttumenn um þennan markað segja að þeir eigi jafnvel enn meira þegar óbein eignaraðild er talin með og að jafnvel sé allur flokkurinn í eigu útlendinga.

Þannig er að óvæntar breytingar á reglum á markaði geta ýtt undir áhættufælni fjárfesta. Þetta er það sem í daglegu tali er kallað pólitísk óvissa. Með þeirri aðgerð sem við stöndum frammi fyrir núna er verið að auka pólitíska óvissu í landinu. Það er ein hliðarverkun af þessari lagasetningu.

Önnur er sú að líklegt er að strax í fyrramálið verði mikill órói á skuldabréfamarkaði og ef illa fer, ef grípur um sig það sem kallað er á enska tungu „panic“ eða skelfing á markaðnum þá getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skuldabréfamarkaðinn sem er næstum því 1.300 milljarðar í dag. Það er líka tekin áhætta með því að samþykkja þessi lög. Aftur á móti er sú áhætta sem Seðlabankinn listar upp hérna, ég tel hana vera óverulega skulum við segja. Það er vissulega varúðarsjónarmið sem Seðlabankinn er að fylgja með því að fara fram á þessi lög en ég tel alls ekki að sú gríðarlega hætta, hin versta sviðsmynd sem þeir mála í greinargerð með frumvarpinu, rætist. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera allt til að reyna að létta af þeim gjaldeyrishöftum sem við búum við núna vegna þess að því lengri tími sem líður frá því að höftin eru sett því meira þarf að stoppa í göt og því erfiðara verður að afnema gjaldeyrishöftin í framtíðinni.

Frumvarpið sem við stöndum frammi fyrir dregur okkur enn lengra út á þetta forað og gerir okkur enn erfiðara fyrir að afnema höftin í framtíðinni. En vissulega er fólgin áhætta í því að hafna þessu frumvarpi en ég tel að sú áhætta, sá ábati eða sá kostnaður að hafna frumvarpinu sé minni en sú áhætta sem felst í að samþykkja það og sá gríðarlegi kostnaður sem fylgir því fyrir pólitíska áhættu, fyrir viðhorf erlendra fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi og þess að gjaldeyrishöftin festist enn frekar í sessi og til lengri tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að þeir aðilar sem hafa varað okkur við á nefndarfundum hafi flutt mál sitt á mjög trúverðugan hátt og þeir hafi flutt mál sitt á trúverðugri hátt heldur en Seðlabankinn hefur gert. Mér finnst Seðlabankinn ekki hafa getað rökstutt nægilega vel hvers vegna við þurfum að grípa til þeirra aukahafta sem hér eru boðuð. Ég mun mæla með því að við verðum á móti þessu frumvarpi nema einhverjar stórkostlegar breytingar komi fram á milli 2. og 3. umr. sem hægt væri að sætta sig við.