140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd sem hafa gert okkur grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið í nefndinni í kvöld og snýr einkum að því að deila með þinginu þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá umsagnaraðilum. Eins og fyrir liggur er verið að hraða þessu máli mjög í gegnum þingið og þess vegna er erfitt fyrir þá þingmenn sem ekki sitja í nefndinni að meðtaka allan boðskapinn nánast á hlaupum, en það skiptir máli að fá þessi sjónarmið inn í þingsalinn og að nokkru er þeirra getið í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Í dag hefur umræðan fyrst og fremst snúið að efnisatriðum þessa frumvarps, sem von er út af fyrir sig, þ.e. að rætt sé efnislega um hvaða breytingar lagt er til að gerðar verði á reglunum. Þær snúa annars vegar að þessum skuldabréfum og síðan þrotabúum bankanna. Þar er greinilega vandi þó að það komi dálítið spánskt fyrir sjónir að menn séu að gera sér grein fyrir þeim vanda núna. Reyndar gegnir kannski dálítið öðru máli um skuldabréfaflokkinn sem nefndur er en um þrotabú bankanna vegna þess að fjármagn virðist hafa verið að leita mjög í þann skuldabréfaflokk á undanförnum mánuðum og vikum sem gefur tilefni til að átta sig á þessari flóttaleið fyrir krónurnar sem þar var þó opin. Öðru máli gildir um þrotabúin vegna þess að það hefur legið fyrir í svo langan tíma að þau mundu hefja útgreiðslu til kröfuhafa og eru engin ný tíðindi í því.

Til hliðar við þessa umræðu er algerlega nauðsynlegt að segja örfá orð um þá stöðu sem við erum smám saman að rata dýpra og dýpra í með þessu haftaregluverki. Eitt er að sparsla þurfi í einhverjar sprungur sem menn hafa fundið í kerfinu en annað er umræðan um það hvert stefnir almennt með höftin og hversu líklegt er að við getum á komandi missirum losnað undan þeim og komist aftur í eitthvert eðlilegt ástand í gjaldmiðilsmálum í landinu. Það verður að sjálfsögðu að vera hluti umræðunnar sem hér fer fram enda eru ekki nema nokkrar vikur síðan við vorum í þinginu að ræða um frumvarp frá efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem lagt var til við þingið og það síðan að lokum lögfest, að þær reglur sem áður höfðu verið til útfærslu fyrir Seðlabankann yrðu lögfestar. Það kom til af ýmsu, meðal annars hugsanlega af því að ekki þótti nægilega sterk lagastoð fyrir reglunum eins og þær voru þá útfærðar og vegna þess að menn töldu að ramminn þyrfti að vera nægilega sterkur fyrir það tímabil sem þá var lagt upp með, þ.e. að byggja áætlun um losun gjaldeyrishaftanna á því að þau gætu varað allt til 31. desember 2015. Það var uppleggið. Við styttum reyndar þann tíma í þinginu eftir talsverða umræðu og átök um hvort ástæða væri til að áætlunin gilti í svo langan tíma.

Hvað segir þessi saga okkur? Ekki bara það sem við gerðum fyrir nokkrum vikum síðan og ég vísaði til og það sem við erum að gera í kvöld heldur líka það sem áður hefur gerst í þessu máli samandregið. Ekkert af því sem lagt hefur verið upp með varðandi setningu gjaldeyrishafta og mögulegt afnám þeirra hefur gengið upp.

Þetta byrjaði allt á árinu 2008 með því að við í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn settum reglu sem átti að gilda í tvö ár. Ég man vel eftir því þegar ég tók þátt í því í þinginu með miklum trega að koma þeim höftum á en það var upplifun okkar sem að því máli stóðum á þeim tíma að þar sem við værum með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með okkur og værum að útvega okkur svo miklar og öflugar lánalínur og mikinn sjóð sem næmi nokkur hundruð milljörðum, gæti ekki annað verið en að ef áætluninni yrði fylgt og hún tæki enda, yrðum við í stöðu til að afnema höftin. Það var uppleggið 2008. Þetta átti allt að gerast á árinu 2010.

Síðan þurfti að framlengja höftin, fyrst um eitt ár. Svo kom að því að við þurftum að lögfesta reglurnar. Nú er unnið samkvæmt áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishaftanna sem eiga að gilda út árið 2013, og einhver nefnd er víst að störfum samkvæmt samkomulagi sem gert var í haust og fundar að því er mér skilst reglulega um hvernig þetta allt gangi. Nú kemur þetta frumvarp sem bendir á ákveðnar smugur sem enn eru í kerfinu og alltaf eru skilaboðin þessi sömu: Setjum bara nógu strangar reglur til að ná utan um þetta allt og þá getum við hafið afnám haftanna.

Má ég vekja athygli á því að senn eru liðin fjögur ár frá því að við settum höftin. Senn eru liðin fjögur ár. Við höfum einungis hert þau. Á síðasta ári vantaði að meðaltali 1 milljarð upp á til að ríkissjóður ætti fyrir gjöldum í hverri viku, það vantaði milljarð á viku. Ekki er það til að efla trú manna og traust á því að við séum líkleg til að afnema höft á næstunni þegar við eigum ekki fyrir útgjöldum í þessu landi.

Fyrr í dag ræddum við um hugmyndir ríkisstjórnarinnar um rammaáætlun. Ríkisstjórnin vinnur að því þessa dagana að fækka virkjanakostum, taka úr nýtingarflokki yfir í biðflokka. Það er miðað við stöðuna eins og hún blasir við okkur í dag. Á fyrri stigum málsins hafa líka verið teknar ákvarðanir sem allar hafa verið í þessa átt. Framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnar í landinu, okkar mikilvægustu atvinnugreinar, er líka í uppnámi. Ekki er það til að efla traust og tiltrú á efnahagskerfinu í landinu. Það er allt á sömu bókina lært og það virðist vera sama hvert litið er í störfum þessarar ríkisstjórnar. Grafið er undan öllu því sem getur byggt undir eitthvert traust sem þarf að vera til staðar svo trúverðug áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna líti dagsins ljós. Þetta finnst mér að þurfi að vera hluti af þeirri umræðu sem hér fer fram. Við erum enn í miðjum klíðum við að herða höftin, draga úr trúnni á íslenskt efnahagslíf og í því samhengi er það ekki bara þetta þingmál eitt sem skiptir máli heldur heildarstaðan, hún er alveg ótrúlega döpur. Ríkissjóður er rekinn með halla, stærstu atvinnugreinarnar eru í uppnámi, löggjöfin öll, meira að segja stjórnarskráin á Íslandi er í uppnámi. Við fengum það síðan í nesti frá forsætisráðherranum um helgina inn í þessa viku að krónan væri ónýtur gjaldmiðill. Það er glæsilegt innlegg frá ríkisstjórninni til að auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs og auka líkurnar á því að við getum afnumið höftin, eða hitt þó heldur.