140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Já, virðulegur forseti, hv. þm. Helgi Hjörvar mun svara andsvari að svo miklu leyti sem ástæða er til að eltast við það sem hér var fram fært. Auðvitað hafa þingnefndir margoft flutt mál og tekið slíkt að sér. Það sem menn stóðu frammi fyrir í morgun var einfaldlega það að fram komu áhyggjur af stöðu mála og nauðsyn þess að flytja á Alþingi lagafrumvarp sem gert væri að lögum eftir lokun markaða og yrði að lögum fyrir opnun markaða daginn eftir. Valkostirnir voru þá tveir; að ná um það góðri samstöðu í þinginu, eins og sem svo betur fer tókst með góðri tilstuðlan stjórnarandstöðunnar, að flytja málið á vegum þingnefndar og afgreiða það í kvöld eða að bíða til morguns og taka það fyrir á ríkisstjórnarfundi og afgreiða það þá fremur annað kvöld.

Þegar ég sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar stóð frammi fyrir þeirri spurningu hæstv. ráðherra hvort nefndin væri tilbúin til að flytja málið varð ég auðvitað að íhuga það að hér væri um að ræða upplýsingar sem komið væri á framfæri við allnokkurn hóp manna og vörðuðu mikilvæga hagsmuni á mörkuðum og það væri þess vegna ábyrgðarhluti að láta það dragast að málið yrði að lögum vegna þess að auðvitað geta slíkar upplýsingar kvisast út. (Gripið fram í.) Auðvitað geta þær haft áhrif á markaði og það er mikilvægt að menn gæti vel að því að enginn búi yfir innherjaupplýsingum á markaði og að upplýsingagjöf sé sem skýrust og opinberust eins og hér er. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. Jón Gunnarsson gæti hætt að gjamma fram í mundi ég kannski komast yfir að svara meiru úr andsvari hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en því miður sé ég að tíma mínum er lokið.