140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er skemmst frá því að segja um aðkomu ríkisstjórnarinnar að mál þetta var til umfjöllunar í morgun á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál. Það er nefnd sem við höfum lagt mikla áherslu á allt frá hruni að fari yfir öll þau mál sem geta varðað fjármálalegan stöðugleika í landinu. Þetta er auðvitað mál af því taginu. Það fékk þar góða reifun og nýtur stuðnings þeirra ráðherra sem þar eiga sæti og er flutt í góðu samráði Seðlabanka Íslands, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þess ráðuneytis sem við höfum stofnað til að hafa yfirsýn yfir þennan málaflokk, forsætis- og fjármálaráðuneytis og er síðan með tilstuðlan meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og með stuðningi stjórnarandstöðunnar flutt á þinginu. Ég held að það sé góður bragur á því að svo víðtæk samstaða sjálfstæðra stofnana, ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar sé um að afgreiða málið í kvöld.